Samningur um veitingu evrópskra einkaleyfa

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:37:22 (6758)

2004-04-26 16:37:22# 130. lþ. 102.24 fundur 884. mál: #A samningur um veitingu evrópskra einkaleyfa# þál. 23/130, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þessar reglur geta haft áhrif í báðar áttir. Hins vegar er það mat aðila að kostirnir við slíkan samning séu fleiri en gallarnir. Það er mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki að njóta slíkrar verndar. Við munum væntanlega geta séð í framtíðinni lyfjaframleiðslu hér á grundvelli uppfinninga og þá skiptir miklu máli að um vernd sé að ræða.

Hins vegar hafa reglur líka verið samræmdar vegna svokallaðra samheitalyfja. Ég held að það sé mjög mikilvægt að í öllum ríkjum Evrópu ríki sambærilegar reglur. Farið hefur verið yfir þetta mál með þeim fyrirtækjum sem hér eiga í hlut og það hefur verið gert af hálfu iðn.- og viðskrn. Ég á von á því að það komi skýrt fram í umfjöllun um lagafrumvarpið sem hefur verið lagt hér fram jafnhliða þessari þáltill. en ég tel eðlilegt að nánari grein verði gerð fyrir því í meðferð nefndarinnar á málinu.