2004-04-26 16:44:40# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða innihald þessa samnings sem hæstv. utanrrh. er að kynna hér með þáltill., heldur langar mig að spyrja annars í tilefni af því að hæstv. utanrrh. fjallaði í ræðu á laugardaginn um miklar loftslagsbreytingar á norðurslóðum og jafnframt að hér var staddur Robert Corell sem hefur verið í miklum rannsóknum á norðurslóðum.

Það er ljóst að þessar miklu loftslagsbreytingar munu verða til þess --- og það er þegar byrjað --- að freri minnkar, ís þiðnar og breytingar verða í búsetu á norðurslóð. Jafnframt má reikna með því að miklar breytingar verði á sjávarhita og núna er rætt um að reikna megi með því að fiskur muni flytjast lengra norður. Þá langar mig að heyra hvort byrjað er að ræða eitthvað hvernig verði með skoðun á og kannski yfirráð á þeim svæðum sem í dag falla hvorki undir Ísland né Færeyjar. Er einhvers staðar verið að skoða hvernig þessi mál þróist? Mér þætti vænt um ef hæstv. utanrrh. vildi í örfáum orðum koma inn á þá þætti hér í upphafi þessarar umræðu.