2004-04-26 16:48:15# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:48]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég á sæti sem áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs í samstarfi þingmanna á norðurslóð og hef fylgst með fréttum af vinnu nefndarinnar að þessari miklu skýrslu. Ég tek undir að þetta er sennilega einhver mikilvægasta skýrsla fyrir okkur sem komið hefur lengi. Mér finnst líka mjög mikilvægt og fagna því hvað Ísland hefur haldið vel á málum í formennskutíð sinni í Norðurskautsráðinu. Miðað við þær fréttir sem hafa komið, að hlýnun og loftslagsbreytingar séu tvisvar sinnum hraðari hér á norðurslóð en annars staðar og þýðing þess fyrir okkur hér, bæði til sjávar og sveita, er mjög mikilvægt að Ísland verði í forustu varðandi þá hagsmuni sem snúa að norðurslóðinni. Það er jafnframt afar mikilvægt að við verðum í forustu og fylgjum því vel eftir hvað þetta getur þýtt fyrir fiskveiðar og fiskigengd lengra í norður.

Ég vil þakka ráðherra fyrir þessar upplýsingar og hvetja hann til þess að Ísland haldi mjög vöku sinni í þessu máli og verði í forustu við að skoða hvernig málið snýr að hafinu og þeirri mikilvægu auðlind sem við Íslendingar eigum þar. Mér finnst miður hversu lítið við höfum rætt þessi mál á Alþingi Íslendinga og ég tel mjög mikilvægt í haust þegar skýrslan kemur að hún rati hingað inn á Alþingi og að hér verði almenn þekking á þessum stóru og mikilvægu málum.