2004-04-26 17:08:57# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[17:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég man rétt ríkja mjög strangar reglur í íslenskum lögum um vinnslu erlendra skipa í íslenskri lögsögu. Hún er nánast bönnuð ef ég man rétt. Ég man eftir því að þegar frægt vinnsluskip, Norglobal, fékk leyfi til að bræða loðnu innan íslenskrar lögsögu þurfti að setja sérstök lög á Alþingi um það. Ég tel að það sé hluti af þessu máli.

Það liggur líka ljóst fyrir að markaður fyrir frysta loðnu með hrognum er mjög takmarkaður. Japansmarkaður er mjög takmarkaður í þessu sambandi. Það hefur alltaf legið fyrir í samskiptum Íslendinga og Færeyinga að hér er eingöngu um að ræða heimildir til loðnuveiða þannig að loðnan fari í bræðslu. Það er það sem Færeyingar hafa verið að sækjast eftir. Þeir hafa hefð fyrir slíkum veiðum en þeir hafa ekki mér vitanlega verið í veiðum sem snerta frystingu loðnu á Japansmarkað eða Rússlandsmarkað. Þannig hefur þetta verið í gegnum tíðina og engin breyting þar á. Mér er ekki kunnugt um að Færeyingar hafi óskað eftir að slíkar breytingar yrðu gerðar.