2004-04-26 17:47:16# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[17:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar loðnuna og Færeyinga liggur alveg ljóst fyrir að strandríki eru Ísland og Noregur vegna lögsögunnar við Jan Mayen og Grænland, en Færeyingar eru ekki aðilar að þessum samningi og eru þar af leiðandi ekki strandríki í þessum skilningi. Þeir hafa hins vegar fengið framseldar veiðiheimildir frá okkur og frá Grænlendingum og fengið síðan heimild til þess að veiða það sem þeir fá frá Grænlendingum í lögsögu okkar.

Hvað lúðuna varðar dettur mér ekki í hug að halda því fram að hér sé eingöngu um aukaafla að ræða. Ég hélt að ég hefði ekki orðað það þannig. Hins vegar má alltaf gera ráð fyrir því að einhver aukaafli komi af lúðu við allar línuveiðar. Það er a.m.k. reynslan hér við suðurströndina eftir því sem ég best veit.