Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 17:55:07 (6782)

2004-04-26 17:55:07# 130. lþ. 102.28 fundur 960. mál: #A Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað# (heildarlög) frv., LS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[17:55]

Lára Stefánsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er mjög ánægð með að sjá þetta frv. því að ég er mjög áhugasöm um aðgengi upplýsinga á netinu öllum til gagns. Ég velti hins vegar fyrir mér nokkrum atriðum og vil fyrst nefna að ég er mjög ósátt við greiðslu fyrir rafrænan aðgang að reglum, lögum og slíkum hlutum sem segja má að þegnar landsins ættu að hafa aðgang að án endurgjalds. Það er mín skoðun fyrst og fremst.

Ég rek augun í að hér er það sett fram að upplýsingarnar og vinnan við að setja upplýsingarnar fram rafrænt eigi að vera skilvirkari og ódýrari. En samt sem áður á ekki að lækka kostnað. Ég vil lesa upp úr athugasemdum við frv. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Rafræn útgáfa mun spara prent- og dreifingarkostnað sem nemur um það bil 30 millj. kr. á árinu 2005 þegar lögin taka gildi. Tekjur vegna áskriftar og auglýsinga eru áætlaðar um 25 millj. kr., og verða þær óbreyttar.``

Síðan er sagt að ekki sé áætlað að lækka gjaldskrána heldur nota féð til þess að greiða fyrir uppsafnaðan halla sem væntanlega er þá kominn til vegna þess að ekki hefur verið gert ráð fyrir kostnaði eins og hann lá fyrir í einhvern tíma. Mér sýnist að menn geri hér ráð fyrir að þeir verði ekki búnir að greiða skuldir sínar fyrr en árið 2009. Ég undrast þetta og átta mig ekki alveg á hvort heimilt sé að framkvæma gjaldtöku á þennan hátt.

Síðan velti ég öðru fyrir mér. Hingað til hafa menn getað skoðað pappírsútgáfur af Stjórnartíðindum á bókasöfnum. En núna er staðan sú að menn eiga að kaupa rafrænan aðgang. Því velti ég fyrir mér hvort menn geri þá ráð fyrir að á bókasöfnum, t.d. almenningsbókasöfnum, verði aðgangur ókeypis fyrir alþýðu manna til að lesa þessar reglur.

Ég velti því einnig fyrir mér að hér kemur fram að góð reynsla hafi verið af vefnum lagabirting.is þegar menn voru að spreyta sig á því hvort þetta virkaði vel. Þá velti ég því fyrir mér --- nú bara veit ég það ekki --- hvort þar hafi verið tekið gjald, hvort það sem hér á að gera byggi á þeirri reynslu.

Ég sé að líka hefur verið skráð dálítið af eldri tölublöðum og hvet til þess að menn sjái sér fært að skrá enn frekar aftur í tímann það sem birt hefur verið.

Síðan rak ég augun í umfjöllun og ábendingar varðandi reglur um persónuvernd og velti fyrir mér í því sambandi hvað verði öðruvísi þegar útgáfan verður rafræn, hvernig það komi við málefni tengd persónuvernd. Hvað verður öðruvísi en hingað til hefur verið í pappírsútgáfunni.

Síðan er enn eitt atriði. Í 4. gr. frv. kemur fram að erlendan texta megi birta, með leyfi forseta:

,,Heimilt er að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar.``

Ekkert segir til um hvaða erlenda tungumál átt er við. Ég hef dálitlar áhyggjur af því að kannski sé tiltekinn hópur sérfræðinga menntaður í tungumálum sem þorri manna skilur ekki. Ég hvet því til þess að menn setji þarna einhver mörk um hvaða tungumál þetta megi vera. Svo velti ég fyrir mér: Hvernig metur maður, hvernig getur maður séð að erlendur texti um eitthvað sem tilheyrir milliríkjasamningum okkar eigi bara við ákveðinn hóp menntamanna sem hafa hlotið menntun þess eðlis að þeir skilja nákvæmlega hvað um er að ræða.

Þessi atriði vil ég gjarnan að komi inn í umræðuna á þessu stigi. Ég ítreka að mér finnst mjög ákjósanlegt að gögn af þessu tagi séu aðgengileg á neti. Ég vil að þau séu aðgengileg fyrir alla án sérstaks kostnaðar.