Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 18:12:05 (6787)

2004-04-26 18:12:05# 130. lþ. 102.28 fundur 960. mál: #A Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað# (heildarlög) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[18:12]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekki að mælast til þess að það yrði endilega ókeypis aðgangur að blaðinu. Ég veit ósköp vel að menn borga fyrir Lögbirtingablaðið í dag. Sennilega borga þeir einnig fyrir Stjórnartíðindin. Ég vil hins vegar benda á að ef þetta fer á rafrænt form verður hægt að leita með mjög öflugum hætti og safna upplýsingum í svona gagnagrunnum og tína til á mjög skömmum tíma. Mér finnst a.m.k. ósanngjarnt að þó að fólk eða fyrirtæki hafi lent í ógæfu, vanskilum, gjaldþrotum eða þess háttar skuli það ítarlega skráð á netinu. Eins og ég sagði áðan geri ég ráð fyrir að þessu verði tengdar leitarvélar og það verði skráð á netinu nánast um aldur og ævi.

Vissulega er það rétt, og má færa að því rök, að Lögbirtingablaðið er í dag geymt mjög víða. Það er hægt að fletta því upp aftur í tímann en hins vegar tekur það langan tíma og kannski ekki nema þeir sem hafa sérstakan áhuga á að róta í fortíðinni sem finna upplýsingar með þeim hætti. Sjálfsagt munu þeir gera það áfram þótt Lögbirtingablaðið fari yfir á rafrænt form.

Annars var talað um að spara ætti peninga með því að færa Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið yfir á rafrænt form. En ég hnýt um það í umsögn með frv. að mikið tap hafi verið á þessari útgáfu mörg undanfarin ár, að því er virðist. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Uppsafnaður halli vegna útgáfunnar var áætlaður í árslok 2003 um 32 millj. kr. Ekki er áætlað að lækka gjaldskrá fyrir birtingar í Stjórnartíðindum fyrr en rekstrarlegu jafnvægi hefur verið náð sem er gert ráð fyrir að verði í árslok 2009.``

Þá vaknar spurningin: Af hverju hefur þetta verið látið rúlla svona lengi, með svona miklu tapi? Hafa menn ekki byrjað að hugleiða þetta fyrir löngu, hvernig mætti spara og hagræða í útgáfunni?