Breyting á IX. og XXII. viðauka við EES-samninginn

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 18:17:56 (6790)

2004-04-26 18:17:56# 130. lþ. 102.30 fundur 869. mál: #A breyting á IX. og XXII. viðauka við EES-samninginn# (reikningsskil) þál. 17/130, Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Frsm. utanrmn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. utanrmn. á þskj. 1451, 869. mál, um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 176/2003, um breytingu á IX. viðauka og XXII. viðauka við EES-samninginn.

Vegna málsins fékk nefndin á sinn fund gesti sem tilgreindir eru í nál. Eins og segir í nál. er með tillögunni leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 176/2003 frá 5. desember 2003, um breytingu á IX. viðauka og XXII. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB frá 18. júní 2003 um árleg reikningsskil og samstæðureikningsskil félaga af tiltekinni gerð, banka og annarra fjármálastofnana og vátryggingafélaga.

Markmið upphaflegu tilskipunarinnar er að tryggja að samræmi sé milli tilskipana Evrópusambandsins um reikningsskil og alþjóðlega reikningsskilastaðla, svo og gerð og framsetningu á skýrslu stjórnar og skýrslu endurskoðenda og þar er mælt fyrir um strangari kröfur um samræmi skýrslna við bestu viðteknu starfsvenjur. Þá verður fleiri félögum gert kleift að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í reikningsskilum sínum.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og er gert ráð fyrir að lagt verði fram lagafrv. á haustþingi 2004.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en hv. þingmenn, auk frsm., Sólveig Pétursdóttir formaður, Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Guðlaugur Þór Þórðarson, Magnús Stefánsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir rita undir nál. þetta.