Samstarf Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu fiskstofna

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 18:22:04 (6792)

2004-04-26 18:22:04# 130. lþ. 102.31 fundur 572. mál: #A samstarf Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu fiskstofna# þál. 18/130, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég lýsi mikilli ánægju yfir að þáltill. þessi virðist vera að fara í gegnum þingið og vona svo sannarlega að kollegar okkar í Færeyjum og Grænlandi séu jafnduglegir við að afgreiða þetta og við. Ég tók sjálfur þátt í að móta þáltill. sem einn af fulltrúum hins háa Alþingis í þingmannanefnd Vestur-Norðurlanda.

Ég held að ákveðnir möguleikar séu fyrir hendi á samvinnu milli Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga í þessum málum. Það er alveg rétt sem fram kemur í greinargerðinni að við eigum þó nokkuð af sameiginlegum fiskstofnum. Ég minni á úthafskarfann, loðnuna, kolmunnann, jafnvel makríl, túnfisk, rækju og grálúðu. Þarna er á margan hátt mikið verk óunnið, bæði í fiskirannsóknum og fiskveiðistjórn. Deilan á milli okkar ágætu nágranna er t.d. enn þá óleyst um hvernig við ætlum að skipta grálúðunni á milli okkar. Það gætu komið upp viðkvæm deilumál hvað varðar íslenska þorskstofninn ef þorskseiði ræki í stórum stíl yfir til Grænlands sem gæti hæglega gerst, einmitt núna þegar mikið er talað um að það sé að hlýna mjög á norðurslóðum. Eitthvað af fiskstofnum okkar í dag gæti leitað norður á bóginn og vestur á bóginn og jafnvel inn í grænlenska lögsögu. Því held ég að það sé mjög mikilvægt að við Íslendingar séum búnir að tryggja ákveðna samstarfsfleti, viðræðufleti og sambönd við þessa ágætu nágranna okkar til þess að við getum í sameiningu leyst úr vandamálum sem hugsanlega koma upp, bæði varðandi veiðar en líka hugsanlega vandamál og þörf á því að stunda rannsóknir, því rannsóknir og góð vitneskja er grundvöllur þess að geta stundað ábyrga og sjálfbæra nýtingu á auðæfum sjávar, bæði lifandi og þeim sem kalla má dauð.

Herra forseti. Ég tel að þetta sé ágætt mál og mjög þarft og enn eitt skrefið í þá átt að auka samvinnu og samstarf á milli Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga.