Háskóli Íslands

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 18:25:20 (6793)

2004-04-26 18:25:20# 130. lþ. 102.33 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv. 41/2004, Frsm. DJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Frsm. menntmn. (Dagný Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1454 fyrir hönd hv. menntmn. en það fjallar um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 41/1999, um Háskóla Íslands.

Nefndin fékk á sinn fund gesti og þó nokkrar umsagnir bárust. Við meðferð málsins í nefndinni kom í ljós að háskólarektor hafði farið þess á leit við menntamálaráðherra að sá hluti frumvarpsins sem tekur til dómnefnda yrði ekki afgreiddur á Alþingi að svo stöddu. Þetta gerði rektor á grundvelli samþykktar háskólaráðs sem taldi að málið hefði ekki hlotið þá umfjöllun innan háskólans sem nauðsynleg væri og að taka þyrfti það fyrir á háskólafundi. Að höfðu samráði við deildarforseta einstakra deilda háskólans sendi háskólarektor nefndinni síðan tillögu að breytingu á frumvarpinu sem var í aðalatriðum þess efnis að í stað þess að kveðið væri skilyrðislaust á um að rektor skipaði dómnefndir til að dæma um hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf til þriggja ára í senn fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans væri honum jafnframt heimilt að skipa dómnefndir til þriggja ára í senn fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans eða einstakar deildir eða stofnanir.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með svohljóðandi breytingu:

Við 1. gr. Efnismálsgrein a-liðar orðist svo:

Rektor skipar þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf. Háskólaráð tilnefnir einn nefndarmann, menntamálaráðherra annan og deild sú eða stofnun sem starfið er við hinn þriðja og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Rektor er heimilt að skipa dómnefndir til þriggja ára í senn fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans eða einstakar deildir eða stofnanir. Háskólaráð tilnefnir einn mann í hverja dómnefnd og menntamálaráðherra annan. Skal sá sem tilnefndur er af háskólaráði vera formaður dómnefndar og sá sem tilnefndur er af menntamálaráðherra varaformaður. Varamenn þeirra skulu skipaðir með sama hætti. Þriðji nefndarmaðurinn er sérfræðingur, tilnefndur af viðkomandi deild eða stofnun, sem skipaður er sérstaklega til þess að fara með hvert ráðningarmál. Í dómnefndir má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla eða jafngildu námi.

Nefndin stóð öll saman að nál. Ísólfur Gylfi Pálmason, Mörður Árnason og Sigurður Kári Kristjánsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nál. rita Gunnar Birgisson formaður, Kjartan Ólafsson, Björgvin G. Sigurðsson, Dagný Jónsdóttir, Valdimar L. Friðriksson og Kolbrún Halldórsdóttir.