Háskóli Íslands

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 18:29:10 (6794)

2004-04-26 18:29:10# 130. lþ. 102.33 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv. 41/2004, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Mörður Árnason:

Forseti. Málið sem hér er á dagskrá við 2. umr. er þríþætt eins og rakið var í ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur. Þeir sem voru viðstaddir síðasta fund menntmn. um málið skrifuðu allir undir nál. þar sem mælt er með að frv. verði samþykkt. Taka verður fram að sá sem hér stendur og er í þessari ágætu nefnd gat því miður ekki sótt fundinn og hafði því ekki áhrif á nál.

Þótt menn skrifi undir nál. er það ekki alltaf vegna þess að þeir séu æpandi glaðir yfir því sem þar stendur og það hygg ég að félagar mínir hafi ekki verið, þeir sem eru því miður fjarstaddir, annar ekki lengur á þingi, varamaður, og hinn í opinberum erindum í austurvegi.

[18:30]

Ég vil aðeins rekja hvaða athugasemdir ég geri, að ýmsu leyti fyrir þeirra hönd, við þetta nefndarálit og við það frv. sem hér er til umræðu. Ég tek fram að þær athugasemdir varða ekki yfirtöku háskólans á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar enda gerum við ráð fyrir því að þar verði svo búið um hnúta að allt fari fram með sóma, og einkum að starfsmönnum þeim sem þar hafa starfað verði veitt vinna við sitt hæfi á hinum nýja stað eða a.m.k. boðin önnur úrlausn ef það ekki gengur.

Þá er að ræða það sem ég vona að hafi skilað sér vel til þingheims úr ræðu framsögumanns nefndarálitsins áðan. Þegar þingið hér veitir brautargengi þeim tillögum að háskólaráði verði heimilt að undanþiggja auglýsingu um ýmis störf er gert ráð fyrir að háskólaráð, bæði þetta og önnur þau sem þessu tengjast í næstu málum, setji sér ákveðnar reglur um það efni. Í þeim reglum verði leitast við og reynt að tryggja að ekki verði um neins konar klíkuskap að ræða við þessar ráðningar og ekki um neins konar ,,klíentisma`` sem ég kalla svo með erlendu orðfæri --- ég held að íslenska hliðstæðan hafi ekki orðið til enn þá. Það sem átt er við er ósköp einfaldlega það að verkefnin sem um er að ræða geta verið afar misstór. Sum eru lítil og nett og sjálfsagt mál að þeir séu ráðnir sem ráðnir yrðu, nánustu samstarfsmenn háskólakennara eða annarra þeirra sem stjórna verkefninu. Einnig getur verið um það að ræða, og um það þekkjum við sem betur fer gleðileg dæmi frá síðustu tímum, að háskólar og einstakir starfsmenn þeirra, háskólaprófessorar, yfirmenn rannsóknastöðva eða einstakir fræðimenn hafi fengið mjög stóra og mikla styrki til þess að fara í miklar rannsóknir og mikil verkefni sem geta tekið langan tíma og sem krefjast mikils mannafla.

Sú hætta getur verið þar fyrir hendi, eins og rakið var ágætlega við 1. umr., að þar verði völd þeirra sem ráða jafnvel of mikil, svo mikil að hætt sé við misnotkun. Háskólaráðin verða að setja reglur sem útiloka þetta. Það var einmitt rætt í menntmn. í tengslum við þetta mál þegar rektor\-ar og skólameistarar skólanna komu þar í heimsókn. Um það tókst ágætisumræða og ég vil ítreka að þetta var afgreitt í menntmn. með þeim vilja að háskólaráðin tækju tillit til þess arna.

Ég vil síðan í síðara lagi taka fram að stuðningur, a.m.k. minn, við breytingar og skipan dómnefnda í Háskóla Íslands byggist á þeirri málamiðlun sem rektor háskólans, Páll Skúlason, kom með í nefndina og óskaði eftir að samþykkt yrði. Sá stuðningur hins vegar nær ekki miklu lengra því að ég er í grundvallaratriðum ósáttur við þá skipan nefndanna sem frv. gerir ráð fyrir.

Af því að það kom ekki fram við 1. umr. í framsögu hæstv. menntmrh. um málið sem þó sagði frá því að þetta frv. væri sprottið af því að menn í Háskóla Íslands hefðu óskað eftir því er rétt að segja frá því hér að Háskóli Íslands óskaði alls ekki eftir þessu frv. eins og það var lagt fram, heldur vildi hann ráða sem allra mestu sjálfur. Sérstaklega var tekið fram á þessum fundi í menntmn. að ekki hefði verið óskað eftir því sem hér var gagnrýnt við 1. umr., að menntmrh. hefði einn fulltrúa í þessari dómnefnd. Jafnvel þó að komin sé núna málamiðlun heldur það áfram að vera þannig að menntmrh. á fulltrúa í dómnefndinni. Hætturnar við það eru ýmislegar. Það er skrýtið að menntmrh. og ríkisstjórnin skuli annars vegar leggja áherslu á sjálfstæði skóla og hins vegar haga sér þannig að þeir grípi fram í fyrir háskólanum og setji aðrar reglur en hann hefur viljað um þetta til þess að menntmrh. hafi áfram sérstakan erindreka sinn við ráðningar í skólanum.

Sú skipan sem nú á að taka upp er að á ýmsum meginsviðum þar sem því er ekki sérstaklega mótmælt á að vera föst nefnd til þriggja ára sem á að taka til mjög stórs hluta Háskóla Íslands. Í þessari föstu nefnd eiga að sitja tveir fastir menn og annar þeirra er beinlínis skipaður af menntmrh. Á það var bent við 1. umr. að þessi maður gæti þess vegna, lögin kæmu ekki í veg fyrir það, verið sá sami í öllum nefndunum og raunar í öllum nefndunum sem menntmrh. skipar. Hann gæti þess vegna haft nánast atvinnu af því að vera erindreki menntmrh. í þessu starfi og séð um að vilji menntmrh. nái fram í ráðningum. Þetta er breyting frá því sem verið hefur því að þó að menntmrh. hafi undanfarið haft fulltrúa í þessum nefndum hefur það verið fulltrúi sérskipaður í hverri nefnd fyrir sig. Þessi skipan nú býður upp á miklu meiri hættu á samfelldum afskiptum menntmrh. af háskólanum og leiðir til þess að það hallar á Háskóla Íslands í því sjálfstæði sem hann sjálfur, a.m.k. í orði kveðnu, og vinir hans ýmsir vilja að hann hafi.

Ég verð að segja það hér, og vil að það komi fram, að þrátt fyrir álit mitt og flestra sem til þekkja, flestra Íslendinga held ég, á rektor Háskóla Íslands, Páli Skúlasyni, þykir mér það druslugangur hjá háskólanum að geta ekki staðið í lappirnar í þessu efni og fylgt fram kröfu sinni um að þeir fái að gera þetta sem þeir vilja sjálfir. Mér finnst það druslugangur og óska Háskóla Íslands þess að hann geti hafið sig upp úr þeirri vesöld sem hann virðist telja sig nauðbeygðan að dúsa í, að fara með betlistaf til menntmrh. og veita honum aukin völd á móti góðum viðtökum í því erindi sem hann hefur hverju sinni.

Forseti. Ég vil að þetta komi fram við þessa 2. umr. þannig að mönnum komi ekki á óvart síðar á þessari öld þegar við breytum þessu aftur í þá veru sem t.d. Félag háskólakennara bendir á, að dómnefndirnar ættu að vera skipaðar algjörlega á háskólavettvangi og þriðji fulltrúinn gæti verið t.d. frá erlendum skóla eða íslenskum hliðstæðum skóla þar sem fræðaþekking er traust og örugg. Félag háskólakennara hafði dug til þess og kjark að mótmæla yfirráðum menntmrh., þessum auknu pólitísku völdum ráðherrans í Háskóla Íslands. Þetta vil ég að komi fram þannig að menn misskilji ekki stuðning minn og félaga minna við þetta frv. þegar það kemur til afgreiðslu við lok þessarar umræðu.