Afgreiðsla þingmannamála

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 13:33:09 (6802)

2004-04-27 13:33:09# 130. lþ. 103.91 fundur 503#B afgreiðsla þingmannamála# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þess að forseti Alþingis hefur lýst því yfir á fundi þingflokksformanna að hann hafi ákveðið að leyfa þingmönnum ekki að mæla fyrir þeim þingmannamálum sem enn bíða þess að komast á dagskrá á Alþingi. Þingdagana til þingloka á greinilega að nýta til þess að afgreiða stjórnarmálin. Þetta berst okkur á sama degi og því er lýst yfir úr þessum ræðustóli að þingið verði framlengt fram eftir maí af því að forsrh. ætlar að setja lög á fjölmiðla, á sama degi og upplýst er að reikna eigi með því að eldhúsdagsumræðu verði frestað, væntanlega af því að það er ljóst að þinginu verður frestað lengur en fáeina daga. Þingið verður og mun halda áfram eitthvað fram eftir maí í ljósi atburða síðustu daga.

Herra forseti. Mér sýnist engin tilraun gerð til þess að eiga samráð við þingflokka stjórnarandstöðunnar um þingið fram undan. Það er óásættanlegt að það sé ekkert samráð, aðeins tilkynning, og það endurspeglar viðhorf til stjórnarandstöðunnar sem mér finnst óviðfelldið.

Alls bíða 56 þingmannamál umræðu. Það eru 23 frv. og 33 þáltill. Aðeins sex þessara mála voru lögð fram eftir 1. apríl sem er lokadagur fyrir framlagningu þingmála þannig að þau komist á dagskrá.

Herra forseti. Samfylkingin er reiðubúin til að starfa fram eftir vori. Þingmenn Samf. hafa flutt frv. um að þingið standi lengur og vinnulag verði bætt. En mér líka ekki þessar tilkynningar og ég fer þess á leit að hæstv. forseti endurskoði þessa ákvörðun og setjist yfir það með þingmönnum hvernig halda skuli á málum varðandi þingmannamál sem eru fjölmörg orðin allgömul hér.