Afgreiðsla þingmannamála

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 13:35:16 (6803)

2004-04-27 13:35:16# 130. lþ. 103.91 fundur 503#B afgreiðsla þingmannamála# (aths. um störf þingsins), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil taka fram af þessu tilefni að þessi athugasemd kemur mér mjög mikið á óvart. Hv. 10. þm. Reykv. s., Ágúst Ólafur Ágústsson, sat fund með forseta fyrir hönd Samf. Þar spurði hv. þm. mig þess hvort ég teldi að fleiri þingmannafrv. yrðu rædd eða ekki. Ég sagðist ekki búast við því svo áliðið sem væri á þinghaldið. Á þeim fundi lýsti ég því jafnframt yfir að það væri skoðun mín að staðið yrði við það að eldhúsdagur yrði á miðvikuudag eftir viku svo það sé alveg ljóst.

Hv. þm., fulltrúi Samf., fór þess þá á leit við mig að eitt sérstakt þingmál þingmanna Samf. yrði tekið á dagskrá, þ.e. 551. mál, þskj. 829. Flutningsmenn eru Katrín Júlíusdóttir o.fl. Ég varð þegar við því að það mál yrði tekið á dagskrá og þá hafði fulltrúi Samf. orð á því að það væri gott þegar fundi lyki í góðum anda. Síðan kom þessi hv. þm. Samf. á fund með forseta síðar um daginn og lét formálalaust bóka eða óskaði eftir bókun, sem ekki er venja, um óánægju Samf. yfir því að mál þingmanna yrðu ekki frekar tekin til 1. umr. Ég vil af því tilefni taka fram að af 88 þingmannafrv. hefur 55 verið vísað til nefndar og af 114 þingmannatillögum hefur 72 verið vísað til nefndar. Ég geri ráð fyrir að það komi hv. þingmönnum ekki á óvart þó að ég sé hreinskilinn á fundi með formönnum þingflokka og skýri frá því að ég telji ekki horfur á því svo langt sem liðið er á þinghald að svigrúm sé til þess að mál þingmanna verði tekin til 1. umr., enda kann ég engin dæmi þess að þinghaldi hafi verið fram haldið einungis til þess að taka mál þingmanna til 1. umr.

Ég vil jafnframt láta þess getið að ég hef lagt mig fram um að eiga góða samvinnu við þingmenn og tel að ég hafi komið til móts við óskir Samf. að fullu þar sem ekki liggur fyrir beiðni frá Samf. um að nokkurt annað þingmál en það sem ég hef hér nefnt verði tekið til 1. umr. nú fyrir þessi þinglok, né um nokkurt annað mál sem þingmenn hafa flutt hefur komið fram beiðni til mín að það mál yrði tekið til 1. umr. Ég kannast ekki við að ég hafi hafnað því ef þingflokkur hefur farið fram á að fá mál rætt eða ég hafi staðið á móti því að slíkt mál yrði tekið til 1. umr.