Afgreiðsla þingmannamála

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 13:38:40 (6804)

2004-04-27 13:38:40# 130. lþ. 103.91 fundur 503#B afgreiðsla þingmannamála# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér komu sömuleiðis nokkuð á óvart fréttir sem mér bárust af fundi með formönnum þingflokka síðdegis í gær í framhaldi af orðaskiptum í upphafi þingfundar þar sem ég skildi tilmæli forsrh. þannig sem gengu til forustu þingsins að menn settust niður og reyndu að ná samkomulagi um endurskoðaða starfsáætlun sem tæki mið af þeim veruleika sem nú blasir við, að þingstörfin lengist allverulega. Ég tel að sjálfsögðu eðlilegast að þá verði um venjulegt þinghald að ræða eftir því sem kostur er og menn sinni jöfnum höndum því að afgreiða mál úr nefndum sem fyrir liggja og eru tæk sem og gefist kostur á að semja um að mæla fyrir mikilvægum þingmálum og sjálfsagt mál að menn sýni þar tillitssemi á báða bóga, þingflokkar velji þá úr þau mál sem þeir leggja mesta áherslu á og þar fram eftir götunum.

Auðvitað ætlumst við til sanngirni og málefnalegrar afstöðu til óska okkar við aðstæður af þessu tagi. Annaðhvort reyna menn að hafa samkomulag og sæmilegan frið um tilhögun þinghaldsins eða ekki. Nógur vill verða losarabragurinn, virðulegi forseti, á þinghaldinu samt þó að reynt sé að skipuleggja það eins og kostur er. Ég tel að það sé langvænlegast að áætla með raunsæjum hætti þann viðbótartíma sem menn telja þurfa, miðað við kröfur um afgreiðslu mála og annað í þeim dúr, þannig að þinghaldið geti verið sæmilega skipulegt og með sem reglubundnustum hætti en ekki í einhverjum andateppustíl.

Auðvitað er okkur ekkert að vanbúnaði að vera allmiklu lengur en starfsáætlunin gerði ráð fyrir þó að það sé alltaf óæskilegt að raska slíku. Menn minnast þess hér að hafa verið fram á Jónsmessu þó það sé kannski ekki skemmtilegasti tími ársins í þingstörfunum, sérstaklega ef gott veður er utan dyra, en menn verða náttúrlega að láta sig hafa það. Aðalatriðið er að reynt sé að standa tiltölulega skipulega að málum og reyna að hafa samkomulag um hlutina, virðulegur forseti.