Afgreiðsla þingmannamála

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 13:41:36 (6806)

2004-04-27 13:41:36# 130. lþ. 103.91 fundur 503#B afgreiðsla þingmannamála# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það sem fyrir liggur miðað við orð hæstv. forseta er að þinghaldið verði lengt og við vitum af hvaða ástæðum það er af því að hæstv. forsrh. hefur látið þá skoðun í ljós að lengja þyrfti þinghaldið alveg sérstaklega út af einu máli sem hér kæmi inn, hinu svokallaða fjölmiðlafrv. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég hefði þá talið að rétt væri að gera samkomulag um hversu lengi við ætlum að starfa og leita eftir því samkomulagi við þingflokka og gera áætlun um það hvernig við vinnum þá úr þeim málum sem bíða umræðu.

Ég get ekki séð að það sé sjálfgefin niðurstaða, sem mér finnst liggja í orðum hæstv. forseta, að þau þingmannamál sem ekki hefur verið mælt fyrir, hvort sem það eru frv. eða þáltill., séu sjálfkrafa tekin út af borðinu og ekki tekin til umræðu þegar fyrir liggur að lengja á þinghaldið. Mér finnst það dálítið einkennileg niðurstaða og tjái mig andvígan því að þetta sé lagt upp á þann veg. Það hlýtur að verða að gera samkomulag um þinghaldið og að við höldum þá áfram venjubundnum þingstörfum í eina, tvær eða þrjár vikur eftir atvikum. Ekki leggst ég gegn því að við reynum að vinna verk okkar vel og leggjum lengri vinnu í þinghaldið ef þörf er á en ég tel að það sé ekki sjálfgefin niðurstaða og mótmæli því sem hæstv. forseti tjáði sig um áðan að þar með séu þingmannamálin út úr myndinni til umræðu.