Afgreiðsla þingmannamála

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 13:44:14 (6808)

2004-04-27 13:44:14# 130. lþ. 103.91 fundur 503#B afgreiðsla þingmannamála# (aths. um störf þingsins), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 130. lþ.

[13:44]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Það er alveg stórfurðulegur skilningur sem herra forseti hefur á þeim tveim fundum sem áttu sér stað í gær. Ég vakti tvisvar sinnum máls á þessu fyrirkomulagi hér í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hæstv. forseti gaf á þeim fundi um að það stæði alls ekki til að taka nein þingmannafrv. fyrir þingið það sem eftir væri þingtíma. Ég benti sérstaklega á það á seinni fundinum að ég vildi bóka þessi mótmæli. Á það var bent að ekki væri hefð fyrir því en þeir sem voru viðstaddir sögðu beinum orðum að þeir ætluðu að muna eftir þeim mótmælum mínum.

Ég benti sérstaklega á að þetta væru eðlileg mótmæli í ljósi þeirra ummæla sem féllu frá hæstv. forsrh. um að starfsáætlun þingsins mundi ekki halda. Það er alveg ljóst að hæstv. forseti hafnaði afdráttarlaust að þingmannamál yrðu tekin fyrir á lokadögum þingsins. Hins vegar féllst hann á, eftir ósk mína, að mál hv. þm. sem er að koma inn á þingið eftir langa fjarveru fengi afgreiðslu. Það er rétt og rétt er að minnast þess. En eftir stendur að hæstv. forseti hafnaði afdráttarlaust að til stæði að taka þingmannamál á dagskrána. Þetta eru mörg þingmál sem hafa legið talsverðan tíma fyrir þinginu. Í raun svaraði hæstv. forseti með tiltölulega miklum skætingi. Hann talaði um að hann hlakkaði til þess tíma þegar Samf. færi í ríkisstjórn og þessir tímar mundu breytast. En það er rétt að benda hæstv. forseta á að það er á ábyrgð forsn. sem skipuleggur þinghaldið skv. 10. gr. þingskapa og það má spyrja hæstv. forseta hvort þetta hafi verið borið undir forsn.

Að lokum vil ég taka það fram sem nýr þingmaður að mér finnst vinnubrögð á þinginu vera afskaplega furðuleg. Stjórnarandstaðan á rétt á að fá mál sín til umræðu og á rétt á því að þau fái þinglega meðferð. Umboðsmaður Alþingis hefur meira að segja vakið athygli á þessum furðulegu vinnubrögðum. Ég vonaðist til að með nýju fólki og endurnýjun í þingheimi kæmi betri bragur á vinnubrögðin.