Afgreiðsla þingmannamála

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 13:49:00 (6812)

2004-04-27 13:49:00# 130. lþ. 103.91 fundur 503#B afgreiðsla þingmannamála# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mörg mál liggja órædd hér í þinginu og nú er búið að lýsa því yfir að það eigi að lengja þinghaldið. Ég fagna því að þá skuli fást tækifæri til að koma þessum málum á dagskrá og vinna þau.

Hæstv. forseti var að hæla sér af því að þetta hefði gengið vel í vetur og það er allt gott um það. Í sumum málum hefur þó ekki gengið allt of vel. Svo ég taki bara mín mál bar ég t.d. þann 6. desember fram fyrirspurn til sjútvrh. um hrefnuveiðar. Það er ekkert svar komið við henni enn. Ég er margbúinn að spyrja eftir því máli og það fæst enginn botn í það og hæstv. sjútvrh. hefur kosið að þegja eins og steinn um afdrif þeirra hrefna sem voru drepnar hér á síðasta ári.

Eins er með annað mál sem ég hafði forgöngu um, beiðni um skýrslu um afdrif hælisleitenda. Það mál var lagt fram enn þá fyrr, einhvern tíma í október eða nóvember, og enn er ekki komið svar við þeirri beiðni.

Mér finnst vera slælega gengið eftir því af hálfu þingsins að staðið sé við áætlanir og reglur um það hvenær eigi að skila inn málum. Það snýst ekki bara um það að fá málin rædd heldur líka að ráðuneytin skili þeirri vinnu sem þau eiga að skila. Ég kvarta yfir þessu, mér finnst það vera óviðunandi.

Ég kom hingað upp ekki síst til að fagna því að hæstv. forseti er í raun og veru að bjóða okkur upp á að gera skurk í okkar málum. Eitt til viðbótar er að það er auðvitað vandræðalegt fyrir þingið að öll mál skuli liggja svo dauð um leið og menn fara héðan á vorin. Ég tel að það eigi að breyta þingsköpum þannig að mál hafi a.m.k. tvö þing og geti þá legið í nefndum yfir sumartímann. Þar með eru nefndirnar komnar með möguleika á því að vinna í málum yfir sumarið. Þær hafa engin tök á því eins og málum háttar núna.