Borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:10:08 (6815)

2004-04-27 14:10:08# 130. lþ. 104.1 fundur 859. mál: #A borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Fyrstu spurningu hv. þingmanns get ég svarað svo að þátttaka Íslensku friðargæslunnar í friðargæslustörfum felst í því að lagðir eru til borgaralegir sérfræðingar til að vinna á þessum stöðum eða starfsmenn til að sinna verkþáttum sem koma að gagni við úrlausn þess vanda sem við er glímt hverju sinni. Gildir þá einu hvort samstarfsaðilinn er SÞ, Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið eða aðrar alþjóðastofnanir. Í ákveðnum friðargæsluverkefnum á vegum Atlantshafsbandalagsins eða Evrópusambandsins verður ekki hjá því komist að íslenskir friðargæsluliðar beri hernaðarlega titla á starfsstöð enda starfi þeir í þannig umhverfi. Þetta hefur viðgengist a.m.k. frá 1994 þegar íslenskir læknar og hjúkrunarfræðingar fóru til Bosníu-Hersegóvínu.

Að því er varðar aðra spurninguna, hvort munur sé á þjálfun og starfskjörum, er það ekki svo. Það er ekki gerður greinarmunur á starfskjörum eða tryggingum starfsmanna á grundvelli hugsanlegs vopnaburðar. Ef krafa er gerð til þess að starfsmenn á vettvangi beri vopn til sjálfsvarnar fá þeir viðeigandi þjálfun í notkun þeirra áður en störf hefjast.

Að því er varðar þriðju spurninguna, um hverjar séu fyrirmyndir um starfs- og tignarheiti, eru fyrirmyndir sóttar til samstarfsríkja í Atlantshafsbandalaginu. Það er miðað við stöðutákn sambærilegra erlendra starfsmanna á starfsstað.

Að því er varðar fjórðu spurninguna er einvörðungu ætlast til þess að starfsmenn friðargæslunnar beiti vopnum til ýtrustu sjálfsvarnar, þ.e. ef þeir verða fyrir vopnaðri árás og telja sig vera í lífshættu. Er þá stuðst m.a. við öryggisreglur á starfsstað sem gefnar eru út í sérhverju tilviki.

Út af þeirri umræðu sem hefur skapast um þessi mál verð ég að segja að það hefur komið mér nokkuð á óvart hvernig hún hefur þróast. Þessar reglur hafa verið í gildi allan þann tíma sem ég hef verið í utanrrn. og er alveg ljóst að þær voru þar áður, eða a.m.k. frá árinu 1994. Það hlýtur að teljast eðlilegt að starfsmenn okkar geti með sama hætti og starfsbræður þeirra varið sjálfa sig ef eitthvað kemur upp sem ekki er fyrirséð. Þessir starfsmenn starfa oft í mjög hættulegu umhverfi, eða sem a.m.k. getur verið hættulegt, og við förum að sjálfsögðu eftir sömu reglum og aðrir starfsmenn gera. Þá höfum við fyrst og fremst öryggi okkar fólks í huga.

Ég tel mjög mikilvægt að við höldum áfram að efla friðargæsluna. Hún hefur getið sér mjög gott orð á erlendum vettvangi. Ég tel að Íslenska friðargæslan hafi t.d. unnið mikið afrek á Pristina-flugvelli, að koma þeim flugvelli undir borgaralega stjórn, þjálfa innlenda aðila til að taka við þeim flugvelli, og ég er alveg viss um að okkar friðargæsla á eftir að vinna frábært starf í Afganistan og ná sambærilegum árangri þar sem okkar lið mun stjórna um fimm hundruð manna starfsliði þess flugvallar. Þessi mál hafa vakið verðskuldaða athygli.

Það má alveg ljóst vera að okkar fólk getur ekki sinnt þessum störfum við þessar aðstæður nema hafa möguleika til sjálfsvarnar í neyðartilvikum sem við skulum vona að komi ekki upp og hafa reyndar ekki komið upp á þeim tíma sem ég hef áður getið um.