Borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:16:39 (6817)

2004-04-27 14:16:39# 130. lþ. 104.1 fundur 859. mál: #A borgaralegir og hernaðarlegir þættir í starfi Íslensku friðargæslunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin en verð að segja að mér finnast þau ófullnægjandi. Ég er enn sömu skoðunar, að hér sé á ferðinni mál sem þörf sé á að taka til miklu rækilegri umræðu en gert hefur verið. Það að menn telja sig knúna til að setja á borgaralega íslenska starfsmenn hernaðarlega titla ræðst af því að menn velja að setja þá til verkefna við slíkar aðstæður. Það er sjálfvalið. Það er ákvörðun sem menn taka.

Í öðru lagi kemur mjög á óvart, verð ég að segja, ef enginn greinarmunur er gerður á starfskjörum og tryggingum þeirra sem eiga að ganga alvopnaðir til starfa á áhættusvæðum og hinna sem gera það ekki. Er það virkilega svo að það séu t.d. engar sérstakar slysa-, örorku- eða líftryggingar keyptar af hálfu hins opinbera fyrir þá starfsmenn sem vinna við svo hættulegar aðstæður. Við verðum einfaldlega, frú forseti, því miður, að gera ráð fyrir þeim möguleika að menn geti slasast eða jafnvel fallið við slík skyldustörf.

Það er upplýst að fyrirmyndirnar að tign eða hernaðartitlum séu sóttar til NATO-herja annarra ríkja. Þar með erum við farin að draga dám af herskipulagi þótt svo eigi að heita að um borgaralega starfsemi sé að ræða.

Varðandi vopnaburðinn, að hann sé eingöngu til sjálfsvarnar eða ýtrustu sjálfsvarnar, þá getur reynst erfitt að skilgreina þær aðstæður eins og menn vita. Hæstv. utanrrh. ætti ekki að láta það koma sér á óvart þótt umræða verði um þessi mál á Íslandi. Það er einfaldlega þannig að það kemur mjög ónotalega við almenning á Íslandi að horfa upp á aukna tilburði til vopnaburðar og þátttöku í aðgerðum af hernaðarlegum toga. Það eru næg önnur verkefni til friðsamlegrar borgaralegrar þróunarsamvinnu og gæslu. Við ættum að láta þeim aðilum það eftir sem hafa mannskap, jafnvel þjálfaða atvinnumenn í vopnaburði, að vera á svæðum þar sem aðstæðurnar eru slíkar. Það skortir á að Alþingi, utanrmn. og aðrir slíkir aðilar hafi komið að umræðum og stefnumótun á þessu sviði. Það gagnrýni ég.