Menningarhús ungs fólks

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:24:51 (6820)

2004-04-27 14:24:51# 130. lþ. 104.2 fundur 929. mál: #A menningarhús ungs fólks# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ráðuneytið hefur á undanförnum missirum fylgst vel með þróun hugmynda um stofnun og rekstur ungmennahúsa á vegum félagasamtaka og ýmissa sveitarfélaga. Rauði kross Íslands hefur haft frumkvæði að stofnun margra slíkra húsa og komið að rekstri þeirra um nokkurn tíma en síðan hafa sveitarfélögin tekið við. Einnig hafa nokkur sveitarfélög komið upp ungmennahúsum ein og sér.

Í þessum húsum fer fram mismunandi starfsemi og eins er opnunartími mjög breytilegur frá einu sveitarfélagi til annars. Í menntmrn. hefur verið litið svo á að mikilvægt sé að félagasamtök og sveitarfélög sýni frumkvæði í uppbyggingu húsa af þessu tagi. Talið er að starfsemi þeirra eigi að vera á þeirra könnu. Það er vandséð að þörf sé á sérstakri lagasetningu um starfsumhverfi og rekstur þessara húsa. Athugun á því hefur ekki átt sér stað innan ráðuneytisins.

Ég vil hins vegar geta þess í tilefni af fyrirspurn hv. þm. Brynju Magnúsdóttur, að ráðuneytið hefur undanfarin ár markvisst unnið að endurskoðun æskulýðsmála hér á landi. Sérstök nefnd starfar á vegum ráðuneytisins, eins og hv. þm. kom inn á í máli sínu. Hún var skipuð sjö aðilum sem þekktu vel til málaflokksins og höfðu víðtæka reynslu af störfum með börnum og unglingum á ólíkum sviðum.

Nefndin skilaði skýrslu í apríl árið 2003. Þar voru settar fram hugmyndir og skoðað hvernig unnt væri að efla þátttöku ungs fólks í félags- og tómstundastarfi, hvernig mögulegt væri að efla æskulýðsrannsóknir hér á landi, á hvern hátt væri hægt að efla menntun og þjálfun leiðbeinenda og forustufólks, hvernig hægt væri að auka óformlega menntun í félags- og tómstundastarfi og tengja hana skólakerfinu og atvinnulífinu. Þar voru síðan tillögur um atriði sem gott er að hafa til hliðsjónar við endurskoðun á lögum um æskulýðsmál og fram komu tillögur varðandi þá málaflokka sem nefndin taldi skipta máli og eru raktir mjög ítarlega í skýrslunni.

Ég held að á grundvelli þessara tillagna verði óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að hugmyndir, m.a. um menningarhús fyrir ungt fólk, komi inn í ferlið í ráðuneytinu og vonandi síðar að það komi til kasta þingsins. Eftir að nefndin skilaði skýrslu var ákveðið að skipa nefnd sem færi yfir endurskoðun á lögum um æskulýðsmál, m.a. með tilliti til reynslu og þekkingar sem skapast hafði í fyrri nefndinni. Nefndin sem endurskoðar þessi lög mun væntanlega skila af sér á haustdögum. Mig minnir að skilatíminn sé 1. október fremur en 1. nóvember. Ég ætla þó ekki að fullyrða um það hér og nú en í ljósi þess geri ég ráð fyrir því, fremur en hitt, að ég komi til með að leggja fram á næsta þingi frv. um æskulýðsmál. Þá verður að sjálfsögðu og er mjög eðlilegt og í raun brýnt að við tökum upp umræðuna um menningarhús fyrir ungt fólk í tengslum við þá umræðu. Ég ítreka að þessi málefni eru fyrst og fremst á könnu sveitarfélaganna. Ég sé ekki að ráðuneytin komi, a.m.k. ekki í bili, til með að breyta afstöðu sinni eða hlutist frekar til um menningarhús unga fólksins.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka hv. þm. fyrir þessa góðu fyrirspurn og fyrir að vekja athygli á þessu brýna máli sem menningarhús ungs fólks er. Eins og margoft hefur komið fram hafa tómstundastörf, --- skiptir þá ekki máli á hvaða aldri ungmennið er, hvort það er yngra en 16 ára eða frá 16 og upp í tvítugt --- gríðarlega mikið uppeldislegt og félagslegt gildi fyrir samfélagið. Við eigum að reyna að hlúa sem best að því.