Menntagátt

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:32:57 (6823)

2004-04-27 14:32:57# 130. lþ. 104.3 fundur 936. mál: #A Menntagátt# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi LS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Lára Stefánsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um Menntagátt menntamálaráðuneytisins, en meginmarkmið hennar er að veita aðgang að upplýsingum og þjónustu sem aðgengileg er á netinu.

Því spyr ég: Hversu mikið efni hefur verið skráð í Menntagáttina? Að sjálfsögðu skipta gæði efnisins miklu máli en einnig fjölbreytni sem og hvort telja megi að efnið sé nægilegt þannig að notkun Menntagáttarinnar sé almenn.

Einnig leikur mér forvitni á að vita hvað gerð gáttarinnar hefur kostað nú þegar og hver áætlaður rekstrarkostnaður sé á ári, enda hlýtur markmiðið að vera það að hafa skráð efni aðgengilegt í framtíðinni, bæta við og fella út. Óvarlegt er að tjalda til einnar nætur. Það tekur langan tíma að venja fólk á notkun gagnsafns af þessu tagi og þegar kennsluháttum er breytt og Menntagáttin hagnýtt í því samhengi þarf að tryggja að hún sé fyrir hendi til lengri tíma. Skráning í Menntagáttina hlýtur að vera nokkuð flókin þar sem markmiðið er að tengja efni á netinu við námsáfanga, námsgreinar og einstök markmið námskráa. Með því móti ættu kennarar að geta fundið efni sem tengist kennslunni og nemendur efni sem tengist því námi sem þeir stunda til að dýpka þekkingu sína. Það kemur einmitt fram í nýlegri rannsókn að nemendur með fartölvur í kennslustundum leita oft víðar fanga en þeir ella hefðu gert.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hver kostnaðurinn hefur verið við skráningu í gáttina og reikna þá með að hann tengist almennum rekstrarkostnaði Menntagáttarinnar til framtíðar og má af því sjá að hverju er stefnt.

Kennarar hafa lagt hart að sér til að gera nemendum kleift að nálgast kennsluefni á netinu. Þetta skapar meiri vinnu fyrir þá kennara sem þetta gera en breytir heilmiklu fyrir nemendur sem hafa þá alltaf aðgang að efni sem tengist námi þeirra, bæði frá eigin kennara og öðrum, og eykur þetta sjálfstæði þeirra í námi. Hversu mikið hefur höfundum efnis í Menntagáttinni verið greitt fyrir slíkt efni?

Auk skráð efnis í tengslum við námskrá má finna á Menntagáttinni upplýsingar um fjölmargt í tengslum við nám og skólastarf, hvað sé á döfinni, og umræðuvettvang sem bætir við aðra umræðu þegar svo ber undir. Því er mikilvægt að Menntagáttin geti áfram þjónað námi og skólastarfi á öflugan hátt til framtíðar.

Ég hlakka því til að heyra svör hæstv. menntmrh. um þetta efni.