Menntagátt

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:35:24 (6824)

2004-04-27 14:35:24# 130. lþ. 104.3 fundur 936. mál: #A Menntagátt# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lára Stefánsdóttir hefur beint til mín fjórum spurningum um Menntagátt menntamálaráðuneytisins sem lýtur að aðgangi að upplýsingum á netinu svona í megindráttum.

Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: ,,Hversu mikið efni hefur verið skráð í Menntagátt menntamálaráðuneytisins?``

Nú þegar eru á Menntagátt um 2.500 skráningar þar sem námsefni er tengt markmiðum námskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þetta námsefni er hægt að skoða eftir námsgreinunum og leita að því í gegnum þennan gagngrunn sem er aðgengilegur á gáttinni.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hvað hefur gerð gáttarinnar kostað nú þegar og hver er áætlaður rekstrarkostnaður á ári?``

Gerð Menntagáttarinnar kostaði 25 millj. kr. Innifalið í stofnkostnaði er rekstur gáttarinnar árin 2003--2005. Á árinu 2003 var sérstaklega varið 10 millj. kr. til sérstakra verkefna á Menntagátt.

Í þriðja lagi spyr hv. þm. Lára Stefánsdóttir: ,,Hvað hefur kostað að láta skrá efni í gáttina?``

Á árinu 2003 var varið um 1 millj. kr. til skráningar efnis á Menntagátt. Áætlað er að verja um 12 millj. kr. til átaks í skráningu og gerð stafræns efnis á árinu 2004.

Í fjórða lagi er spurt: ,,Hversu mikið hafa höfundar fengið greitt fyrir efni sitt?``

Á árinu 2003 voru greiddar 3,7 millj. kr. í styrki til höfunda stafræns efnis á Menntagátt. Ekki eru greidd höfundarlaun til þeirra sem skrá efni sitt á Menntagátt enda er tilgangur skráningarinnar fyrst og fremst að veita upplýsingar um námsefni sem er til staðar og tengist þá markmiðum námskránna sjálfra.