Menntagátt

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:37:38 (6825)

2004-04-27 14:37:38# 130. lþ. 104.3 fundur 936. mál: #A Menntagátt# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi LS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Fyrirspyrjandi (Lára Stefánsdóttir):

Herra forseti. Ég undrast svolítið hvað mikið fer í átak á skráningunni. Ég velti því fyrir mér vegna þess að eitt af markmiðunum var að fólk skráði sjálft í þennan grunn. Í framhaldi af því spái ég í hvort menn hafi orðið fyrir vonbrigðum með hvað lítið hefur gerst í þeim efnum.

Síðan hef ég áhyggjur af því að höfundar efnisins fái ekki meira greitt og velti fyrir mér höfundarétti í því sambandi og sérstaklega álitamálum sem tengjast djúpkrækjum í efni á vefum annarra. Þetta eru kannski vangaveltur sem eiga ekki við hér og nú. Engu að síður eru þetta spurningar sem vert er að hafa í huga.

Ég veit svo sem ekki hvort 2.500 skráningar eru nákvæmlega það sem maður vildi sjá og get ekki metið það. Kannski hefði ég átt að spyrja um í hverju o.s.frv. En þetta er ágætt og ég er mjög ánægð með að þessi gátt gengur að mörgu leyti vel. Mér heyrist líka á hæstv. menntmrh. að hún hyggist stuðla að því að þarna komi inn meira efni og verði til lengri tíma. Ég treysti því þá að það sé rétt sem hún segir.

Að öðru leyti tel ég að Menntagáttin hafi komið ágætlega út og vil hvetja menn til að nýta hana en vona að skráningar aukist og menn skrái þá sjálfir.