Samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:50:50 (6831)

2004-04-27 14:50:50# 130. lþ. 104.4 fundur 628. mál: #A samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að með þeirri rannsókn sem hér er kynnt af hæstv. ráðherra skuli vera fylgt eftir hver þróunin verður á svæðum eins Austurlandi. Á Austurlandi hefur verið íbúafækkun á undanförnum árum og menn hafa borið við einhæfu atvinnulífi. Ég kem frá landsvæði á Vestfjörðum þar sem einnig hefur verið íbúafækkun og því miður er viðvarandi íbúafækkun í Norðvesturkjördæmi. að stóru leyti. Því er auðvitað mjög áhugavert fyrir okkur landsbyggðarþingmenn að fylgjast með hvaða breytingar fylgja því þegar næg atvinna stendur til boða og fjölbreytileg atvinnutækifæri sem fylgja uppbyggingu og síðar viðvarandi atvinnurekstri eins og álverinu í Reyðarfirði.

Það verður auðvitað mjög fróðlegt að sjá hvaða fólk flytur inn á svæðið, hvort það ílengist þar, hvaða menntun það hefur, hvaða fjölskyldugildi, fjölskyldustærð o.s.frv. Ég tel að (Forseti hringir.) það skipti miklu máli fyrir okkur hvað varðar framtíðina.