Samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:55:45 (6835)

2004-04-27 14:55:45# 130. lþ. 104.4 fundur 628. mál: #A samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EMS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir glögg svör varðandi þá fyrirspurn sem hér var lögð fram. Það er athyglisvert sem hæstv. ráðherra segir að seinkunin muni ekki skaða. Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra fari rétt með í þeim efnum. Helsta ástæðan er auðvitað sú að Byggðarannsóknastofnun hefur áður komið að því að taka út bæði viðhorf og stöðu einstakra mála því að stofnunin kom að hluta til að samningu umhverfismatsskýrslu þar sem stofnunin kannaði þessi mál og hefur síðan haldið áfram ákveðinni upplýsingaöflun þannig að ég vona að þetta dugi til þess.

Það var athyglisverð athugasemd sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni þar sem hann vitnaði í hagfræðing nokkurn, Ásgeir Jónsson, sem hefur greinilega á þessari ráðstefnu sem ég mætti ekki á farið með ákveðinn hluta úr gömlum ræðum mínum varðandi þetta mikilvæga verkefni vegna þess að það er auðvitað algert grundvallaratriði og er hugmyndin að hluta til á bak við þá þál. sem samþykkt var og þessi rannsókn byggir á að þetta tækifæri, það átak sem þarna er verið að gera, nýtist samfélaginu. Þess vegna er svo mikilvægt að fylgst sé með öllu þannig að hægt sé að bregðast við sem allra fyrst, bæði gagnvart þeim þáttum sem jákvæðir eru til þess að gera þá sem jákvæðasta þannig að áhrifin verði sem mest og eins gagnvart þeim þáttum sem við skulum ekki horfa fram hjá, hinum neikvæðu þáttum sem auðvitað koma upp og fylgja svona miklu raski og það er auðvitað mikilvægt að bregðast við þeim sem allra fyrst til þess að áhrif þeirra verði sem allra minnst.

Aðeins varðandi fjármögnun verkefnisins. Miðað við þær upplýsingar sem ég hafði kemur mér á óvart að ekki skuli vera tryggt nú þegar meira fjármagn til verkefnisins því að miðað við þær tölur sem ég hafði fengið sýnist mér það ekki duga, en hæstv. ráðherra upplýsir okkur kannski um það vegna þess að það er auðvitað ljóst að þetta er tengt ákveðnum erlendum verkefnum og það getur verið að fjármögnun sé að hluta til hugsuð í gegnum þau verkefni. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur frekar um það.