Samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 14:58:06 (6836)

2004-04-27 14:58:06# 130. lþ. 104.4 fundur 628. mál: #A samfélagsleg áhrif álvers- og virkjunarframkvæmda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá miklu umræðu sem varð um málið og sérstaklega þakka ég fyrirspyrjanda bæði fyrir að leggja fram fyrirspurnina og fyrir þolinmæðina að hún skuli hafa verið tekin þetta seint á dagskrá.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem ég sagði áðan nema ég vil segja, og reyndar hefur það komið fram, að það eru til mjög miklar upplýsingar frá þessu svæði þannig að ég held að það sé ekki vandi að leggja þá grunnlínu sem hér var talað um. Nú er að einhenda sér í verkið og ég bind miklar vonir við að það verði okkur til framdráttar á mörgum sviðum. Í rauninni erum við að tala þarna um verkefni á heimsvísu því að uppbyggingin er það stór miðað við tiltölulega fámennt landsvæði að það er ekki nokkur vafi á því að hún geti skipt máli og eftir henni geti verið tekið víðar en á Íslandi.

Hugmyndin er sú að upplýsingar geti legið fyrir oftar en að loknu þessu tímabili og ég tek undir það með hv. þingmönnum að það er mikilvægt að nýta þær upplýsingar sem berast jafnóðum þannig að þær geti orðið okkur gagnlegar við það að koma í veg fyrir óæskileg áhrif sem ég ætla vissulega ekki að útiloka að geti átt sér stað.

Átakið sem þarna er hafið mun nýtast samfélaginu á umræddu svæði. Það er ekki nokkur vafi á því og það sjáum við nú þegar. Það er skemmtilegt að koma austur og sjá þann mikla kraft og þá miklu bjartsýni sem þar ríkir og ég veit að eftir örfá ár munum við horfa á allt annað landslag á Austurlandi en var fyrir nokkrum árum. Það er hins vegar rétt sem hér hefur komið fram að það er ekki alls staðar jafnbjart yfir og að sjálfsögðu verður unnið að málefnum þeirra landsvæða í framtíðinni.