Störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:00:34 (6837)

2004-04-27 15:00:34# 130. lþ. 104.5 fundur 794. mál: #A störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EMS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram fsp. til hæstv. iðnrh. um hlutfall starfa á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu.

Hún hljóðar þannig:

Telur ráðherra æskilegt að hækka hlutfall starfa á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu og ef svo er, hvert telur ráðherra að hlutfallið ætti að vera?

Ástæða fsp. er sú að fyrir ekki margt löngu kom út skýrsla á vegum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar þar sem tekið hefur verið saman yfirlit yfir opinber störf á Eyjafjarðarsvæðinu og verið borið saman við opinber störf á höfuðborgarsvæðinu. Það sem vekur fyrst athygli er að Atvinnuþróunarfélagið þurfti að leggjast í töluverða vinnu til að fá yfirlit yfir þessi störf og hvernig þau skiptust og verður að teljast afar óeðlilegt að slíkar upplýsingar skuli ekki liggja fyrir þannig að hægt sé að fylgjast með því, en það er kannski hluti af skýringu á því að ekki hefur betur tekist til en komið hefur í ljós varðandi hlutfall opinberra starfa á milli svæða því það hefur verið stefna mjög margra ríkisstjórna allt frá árunum 1973--1974 að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, þ.e. að reyna að hafa áhrif á það hvernig opinber störf dreifðust um landið. Það má segja að grundvallarrit hafi verið samið á árunum 1973--1974, sem gefið var út af ríkisstjórn þá, og formaður þeirrar nefndar er núverandi forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson. Það var mikið verk og margar tillögur lagðar fram sem því miður náðu ekki fram að ganga en víst er að allt önnur staða væri í byggðum landsins ef þær tillögur hefðu náð fram að ganga.

Ég get nefnt sem dæmi að þar var m.a. gert ráð fyrir því að stofnað yrði svokallað flutningsráð ríkisstofnana þar sem gera átti áætlanir um hvernig stofnanir yrðu fluttar og þeim dreift um landið.

En svo við hlaupum fljótt yfir sögu hefur þróunin því miður orðið sú að það hefur stöðugt dregið úr áherslum þess að dreifa opinberum störfum um landið og í núverandi byggðaáætlun er orðalagi mjög hóflega stillt í öllu varðandi þau mál og ekki nein klár markmið eins og hafa þó oft verið áður.

Meginniðurstaðan í skýrslu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar er sú að 72% af opinberum störfum eru á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að tæplega 63% landsmanna búi þar, en 6,6% af störfunum eru á Eyjafjarðarsvæðinu þrátt fyrir að 7,6% íbúa búi á því svæði.

Ljóst er að Eyjafjarðarsvæðið er fyrst og fremst tekið sem dæmi vegna þess að upplýsingarnar um það liggja fyrir og líka vegna þess að það hefur verið sérstaklega eyrnamerkt sem sérstakt átakasvæði í þessu og þess vegna er fsp. lögð fyrir byggðamálaráðherra og vonandi verða svör ráðherra skýr og afdráttarlaus.