Störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:03:52 (6838)

2004-04-27 15:03:52# 130. lþ. 104.5 fundur 794. mál: #A störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að byggðamálaráðherra fer ekki með þennan málaflokk heldur forsrh., en þar sem hv. þm. talaði um Eyjafjarðarsvæðið í fsp. sinni taldi ég að hægt væri að rökstyðja það að ég svaraði fsp. Hv. þm. var kominn miklu víðar í máli sínu áðan þannig að ég vildi hafa þennan fyrirvara á.

Í svari mínu er ekki farið mjög nákvæmlega yfir það hversu mörg störf ég tel að ættu að vera á Eyjafjarðarsvæðinu, mér finnst erfitt að svara þeirri spurningu nákvæmlega. Ég get þó sagt að æskilegt er að fjölga störfum á Eyjafjarðarsvæðinu á vegum ríkisins sem og annarra aðila, og það hefur verið unnið að því á undanförnum missirum og árum með ýmsum verkefnum og áherslum.

Hvert hlutfallið ætti að vera er flóknara mál því aðstæður geta verið mismunandi eftir eðli og flokkun þeirra ríkisstarfa og -stofnana sem um er að ræða. Erfiðara getur því verið að ná einhverju ákveðnu hlutfalli ríkisstarfa á ákveðnum stöðum á landinu. Í þessu efni er ekki rétt að mínu mati að vera með alhæfingar.

Það sem er hins vegar sérstakt við Eyjafjarðarsvæðið er að það er stærsti byggðakjarni landsins utan höfuðborgarsvæðisins og þar er fyrir hendi fjölbreytt aðstaða sem skapar sterkari forsendur fyrir störf á vegum ríkisins. Almennt talað er því æskilegt að hlutfall starfa á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu endurspegli íbúafjöldann, og ég ætla ekki að endurtaka þær tölur sem hv. þm. fór með áðan úr skýrslu sem Atvinnuþróunarfélagið lét vinna.

Ég vil líka segja um aðra staði, fyrst ég er komin út fyrir Eyjafjarðarsvæðið, að mér finnst að sama gildi um Ísafjörð og Mið-Austurland.

Það skal ekki horft fram hjá því að það getur í einhverjum tilvikum verið óhagkvæmt að dreifa starfsemi á vegum einstakra fyrirtækja eða stofnana um landið, ekki síst ef um minni byggðakjarna er að ræða. En það er líka mikilvægt að haft sé í huga að það getur í öðrum tilfellum verið hagkvæmt fyrir ríkisfyrirtæki og -stofnanir, jafnt sem önnur fyrirtæki, að hafa ekki alla starfsemi á einum stað. Starfsemi utan þéttbýlissvæðisins getur verið hagkvæm á mælikvarðanum krónur og aurar. Það ætti alla vega að forðast þann hugsunarhátt að gera ráð fyrir því fyrir fram að slíkt sé óhagkvæmt. Þetta á ekki síst við nú á tímum þegar tæknin hefur gert svo margt mögulegt sem ekki var mögulegt áður.

Ég get alveg trúað því að hv. þm. komi hér upp og telji þetta ekki vera mjög merkilegt svar en ég tel ekki þægilegt að svara þessu nákvæmlega. Hins vegar er enginn vafi á því hver skoðun mín er í þeim efnum, ég vil að hlutfallið sé hærra og hef lagt mig fram um það í þeim tilfellum þar sem ég hef getað haft áhrif á að fjölga störfum og má nefna Byggðarannsóknastofnun Íslands á Akureyri, sem var til umfjöllunar rétt áðan, Nýsköpunarmiðstöð og fleira mætti nefna. Verið er að fjölga störfum hjá Orkustofnun og Íslenskum orkurannsóknum á Akureyri og lýk ég þá upptalningunni að sinni.