Störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:09:28 (6840)

2004-04-27 15:09:28# 130. lþ. 104.5 fundur 794. mál: #A störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst að ég hafi of oft heyrt hæstv. ráðherra tala um að eitthvað tiltekið sem hún er spurð um sé ekki málaflokkur á verksviði hennar. Hæstv. ráðherra á að líta á sig sem ráðherra byggðamála og byggðamálin eru á verksviði ráðherrans. Þetta hlýtur að heyra undir hana þó svo að aðferðirnar og samstarf þurfi að vera við aðra ráðherra ef flytja á verkefni út á land.

Mér finnst að það þyrftu að liggja fyrir upplýsingar af svipuðu tagi og við höfum verið að ræða um og hafa verið settar saman um Eyjafjarðarsvæðið um allt dreifbýli á landinu. Ég sé ekki að það eigi að gilda önnur lögmál um aðra byggðakjarna en gilda um Akureyri, Vestfirði og hvaða byggðakjarna sem er. (Forseti hringir.) Mér finnst hættulegt ef menn fara að líta þannig á (Forseti hringir.) að byggðakjarnahugsunin eigi að flokka menn svona niður.