Störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:12:44 (6842)

2004-04-27 15:12:44# 130. lþ. 104.5 fundur 794. mál: #A störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Marðar Árnasonar vil ég koma því á framfæri að þó að við teljum úti á landsbyggðinni að vel sé hægt að vinna opinber störf þar erum við ekki að vega að Reykjavík með þeim orðum, heldur að það skorti ákveðinn skilning á því að vel sé hægt að vinna fjölbreytt störf úti á landi. Það hefur verið virkilega góð reynsla af því að flytja ýmsar stofnanir á landsbyggðina. Ég vil t.d. nefna Byggðastofnun á Sauðárkróki, ég get ekki séð að hún starfi neitt verr þar en í Reykjavík, og ýmis önnur störf.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hún er yfir byggðamálum, er mál sem varðar Akureyri sérstaklega og það er Lýðheilsustofnun. Þegar málið var kynnt var það alltaf kynnt þannig að stofnunin ætti að vera á Akureyri.

Mig langar að spyrja, vegna þess að ráðherra er inni í þessum málum: Hvað varð til þess að stofnunin er í Reykjavík? (Forseti hringir.) Þetta er ný stofnun.