Störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:15:24 (6844)

2004-04-27 15:15:24# 130. lþ. 104.5 fundur 794. mál: #A störf á vegum ríkisvaldsins á Eyjafjarðarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GAK
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það er svo sem að vonum að þegar verið er að hreyfa við einhverju sem heitir byggðamálaumræða þurfa menn að tjá sig. Það sýnir hversu brýn þessi mál eru, hversu mikið þau brenna á mörgum, sérstaklega okkur landsbyggðarþingmönnum sem horfum til þess að þróun á ákveðnum landsvæðum er að okkar mati mjög til hins verra þar sem fólki fækkar og atvinnutækifærum líka.

Þrátt fyrir að höfuðborgin sé mikils virði fyrir landsbyggðina er ekki nauðsynlegt að nánast öll viðbótarstörf sem verða til hér á landi festi þar rætur. Það er hægt að vinna fjölmörg störf úti á landi og ekki þurfa allar stofnanir sem hér eru og hafa verið í áratugi að vera hér um alla framtíð. Það má nefna stofnanir eins og Landhelgisgæslu og Hafrannsóknastofnun. Það er engin sérstök ástæða fyrir því að þær stofnanir séu í Reykjavík svo dæmi sé tekið. Mér finnst að vissulega megi skoða vandlega fyrirkomulag stofnana hér á landi.