Samkeppnisstofnun

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 15:33:24 (6852)

2004-04-27 15:33:24# 130. lþ. 104.6 fundur 721. mál: #A Samkeppnisstofnun# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það er óhjákvæmilegt að gera athugasemdir við svör hæstv. iðnrh. um þetta efni, hvað varðar hinar stórauknu fjárveitingar til stofnunarinnar. Það kom fram hjá forsvarsmönnum Samkeppnisstofnunar í fjárln. í haust að þær einu viðbætur sem stofnunin hefði fengið væru eðlilegir framreikningar og fjárveitingar vegna nýrra og sérstakra verkefna en að öðru leyti hefði stofnunin um árabil þurft að sæta hagræðingarkröfu á hverju ári þrátt fyrir að, eins og hæstv. ráðherra segir, verkefni stofnunarinnar fari vaxandi og verði sífellt flóknari. Stofnunin hefur á hverju ári þurft að sæta hagræðingarkröfu og sú hagræðingarkrafa er uppsöfnuð yfir 20 millj. kr. Við þingmenn Samf. fluttum um það sérstaka brtt. við fjárlög, sem var felld einróma af stjórnarliðinu. Stjórnarliðið var sammála um að setja ekki meira fjármagn til Samkeppnisstofnunar. Þess vegna verða allar ræður hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, um að efla aðhald með umsvifamiklum og markaðsráðandi aðilum, hjóm eitt og markleysa þegar menn láta ekki fjármagn fylgja yfirlýsingum sínum.