Slátrun alifugla

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:05:30 (6865)

2004-04-27 16:05:30# 130. lþ. 104.8 fundur 900. mál: #A slátrun alifugla# fsp. (til munnl.) frá landbrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hæstv. landbrh. Það er erfitt að skylda sláturhús í einkaeigu til að taka við slátrun sem þeir vilja ekki sjálfir, aðallega vegna heilbrigðiskrafna og smithættu sem orðið getur í húsunum. Þetta er mjög viðkvæm vara. Það þarf að gæta fyllsta hreinlætis og er mjög alvarlegt ef sjúkdómshætta skapast og bakteríur berast inn í sláturhúsin. Ég tel að þeir sem ákveða að rækta aligæsir, aliendur, alidúfur eða fasana, verði einfaldlega að gera ráð fyrir því áður en þeir fara í slíkan búskap að þeir verði að koma sér upp sláturhúsi eða semja um það fyrir fram, áður en þeir fara út í að framleiða þessar afurðir.