Slátrun alifugla

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:09:14 (6868)

2004-04-27 16:09:14# 130. lþ. 104.8 fundur 900. mál: #A slátrun alifugla# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þótt mér hafi fundist þau rýr. Ég þakka jafnframt hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunum.

Staðreyndin er sú að hér er töluvert mikill markaður fyrir fjölbreytilegt fuglakjöt. Töluvert mikið er flutt inn af fuglakjöti, öndum, gæsum og öðrum fuglum. Áhuginn er því til staðar.

Ég hygg að við, sem neytendur, vildum gjarnan eiga tök á að kaupa mismunandi tegundir fuglakjöts sem framleitt væri innan lands. Spurningin er með hvaða aðgerðum er hægt að koma til móts við það. Ég ætla ekki að fara fram á að hæstv. landbrh. fari sjálfur að slátra gæsum og öndum þótt ég þykist vita að hann sé alinn upp við að bjarga sér í þeim efnum eins og fleiri okkar. Engu að síður var þetta gert í þessum sláturhúsum til skamms tíma. Þá var samið um það við eiganda sláturhússins og teknir frá ákveðnir dagar til að taka þessa fugla inn. Ég er ekki viss um að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að það þurfi sérútbúnað til þess. Fyrst og fremst snýst þetta um heilbrigðiseftirlit. Ákveðinn búnað þarf reyndar en ég er ekki viss um að það eigi að útiloka slíka slátrun.

Á hinn bóginn verður að skoða hvaða möguleikar eru til að koma upp litlum, sérhæfðum sláturhúsum fyrir minni fuglategundir og hvort kröfur til þeirra séu með þeim hætti að það sé framkvæmanlegt að hafa þau tímabundið í notkun til þessara verka o.s.frv. Ég tel mikilvægt að finna farveg til að stuðla að því að þessar greinar framleiðslu á margskonar fuglakjöti geti þrifist og það sé gert samkvæmt eðlilegum heilbrigðiskröfum.