Markaðssetning lambakjöts innan lands

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:15:33 (6871)

2004-04-27 16:15:33# 130. lþ. 104.9 fundur 902. mál: #A markaðssetning lambakjöts innan lands# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram, að bæði úr þessum ræðustól, í fjölmiðlum og hvert sem ég hef farið hef ég hvatt bændur til að standa vörð um sterkasta markað sinn, innanlandsmarkaðinn, og sækja fram á honum því hann sé þeim langdýrmætastur. Það er því alveg skýrt í mínum huga.

Það eru stór orð af hálfu hv. þm. að segja að engin áhersla sé lögð á innanlandsmarkaðinn. Auðvitað leggja bændur og afurðastöðvar þeirra mikla áherslu á innanlandsmarkaðinn. Við sjáum það í auglýsingum, blöðum og í sjónvarpinu. Ég er t.d. hér með boðskort þar sem mér er boðið að vera við upphaf mikillar markaðssetningar á vegum Sláturfélags Suðurlands og Hagkaupa, fimmtudaginn 29. apríl kl. 17, hæstv. forseti, svo ég auglýsi (Gripið fram í: Megum við koma líka?) hátíðina og þið eruð öll hjartanlega velkomin þangað. Það er því víða mikið um að vera í verslunum og ég er við margar uppákomur.

Það er mikið fjármagn lagt í að auglýsa lambakjöt og markaðssetja það hér heima. Ég get tekið undir með hv. þm. að það má gera það með enn áhrifaríkari hætti og bændurnir verða að leita leiða til þess. Hér stendur ekki markaðsstjóri lambakjötsins þó hann hafi mikinn áhuga á málinu og finnist lambakjötið mjög gott og sárni ef það verður undir. Það er mikið borðað af lambakjöti og eins og skáldið sagði er lambakjötið gullinmura og gleymmérei. Þannig bragðast það. Það er mikil áhersla lögð á það innan lands og má gera það enn þá betur.

Ég get tekið undir með hv. þm. að ég hef aðeins orðið þess var hvað íslenska lambið, mjólkurvörurnar og ostinn varðar, að þar eru mikil sóknarfæri sem ég held að þessar atvinnugreinar þurfi að nota betur.

Hvað varðar útflutningsskylduna sem hv. þm. minntist á, er hún atriði sem bændur hafa borið í samninga sína og er þar að þeirra tilstilli. Þeir hafa talið hana mikilvæga til þess að standa saman að markaðssetningu á erlendum vettvangi. Ég finn það hér og víðar að menn eru að hnýta í markaðssetninguna erlendis, en á síðustu fimm árum höfum við verið að gera þetta með öðrum hætti en áður, selja lambið sem gullinmuru og gleymmérei sem íslenska náttúruafurð úr hreinu umhverfi og erum komin inn á fleiri hundruð verslanir í Bandaríkjunum, Ítalíu og í Danmörku vorum við að sjá hærra verð en áður. Ég geri mér grein fyrir að þeir sem lögðu upp í markaðssetningu fyrir íslenska fiskinn úr hafinu hreina fyrir 50 árum sættu sama áróðri, að það væri vitlaust og menn ættu ekki að standa í því, en hann stendur undir lífskjörum Íslendinga.

Ríkið hefur því lagt aðeins pening í átaksverkefni sem heitir Áform og er má segja markaðssetning á Íslandi í heild sinni, 25 millj. kr. á ári koma úr fjárlögum. Verið er að selja Ísland í gegnum Áform og það er fleira en lambið. Þetta skilar ferðamönnum til baka og ég held að það skili Íslandi miklu. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. af því ég hef verið viðstaddur sölumennsku á vegum Áforms og Iceland Naturally í Bandaríkjunum, hef fylgst með Sigga Hall og Baldvini Jónssyni og fleirum meisturum Íslands í sölumennsku, fólki frá Flugleiðum o.s.frv., að mér finnst mjög áhugavert að bændurnir og afurðastöðvar þeirra beiti sams konar aðferðum hér heima til að stækka markað sinn og efla hann og nefni það oft við Bændasamtökin og Landssamband sauðfjárbænda að þeir eigi að fara sömu leið, þeir þurfi að herða róðurinn, þeir þurfi að ná til neytendanna með sams konar hætti og menn eru að gera erlendis.

Ég ítreka að mikið fjármagn fer í að markaðssetja íslenskt lambakjöt. Ég hef ekki tölur um það hér. Afurðastöðvarnar leggja mikinn kostnað í að auglýsa lambakjötið og verslanirnar leggja líka mikið á sig til þess að auglýsa að þær séu með úrvalslambakjöt. Við sjáum reyndar að afurðastöðvar bænda víða um land hafa verið að sérhæfa sig í sínu fjallalambi o.s.frv. Það þykir neytandanum vænt um og svarar kalli þeirra. Þetta er því allt á góðri leið, en betur má ef duga skal.