Markaðssetning lambakjöts innan lands

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:22:07 (6873)

2004-04-27 16:22:07# 130. lþ. 104.9 fundur 902. mál: #A markaðssetning lambakjöts innan lands# fsp. (til munnl.) frá landbrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst íslenskir bændur ekki hafa staðið sig í því að selja íslenskt lambakjöt á innanlandsmarkaði, langt því frá. Kannski er það ekki bara bændunum að kenna, heldur einhverjum fleirum. Mér finnst lambakjöt vera boðið með óviðunandi hætti í mörgum verslunum í landinu. Fólk hefur ekki aðgang að kjötinu flokkuðu og tilhöfðu eins og nútíminn gerir kröfu um. Ég er alveg sannfærður um að þar liggja lyklarnir að því að fá miklu meiri nýtingu á kjöti og miklu meiri sölu, þó það verði dýrara. Krafan í dag er að þetta sé góð vara og passi í þá matargerð sem fólk ætlar að nýta hana í og henni þarf að verða við. Það er langt frá því að það sé gert. Ég held að það sé mikilvægt og vil koma því á framfæri.