Markaðssetning lambakjöts innan lands

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:27:12 (6876)

2004-04-27 16:27:12# 130. lþ. 104.9 fundur 902. mál: #A markaðssetning lambakjöts innan lands# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Landbrh. vill ítreka það í upphafi þessarar aldar, að það er enn skoðun hans að það séu mannréttindi að eiga sauðkind og í rauninni mannréttindi að eiga hvaða dýrategund sem er. Það gefur mörgum einstaklingum sem eiga sauðkindur mikið og það væri hastarlegt að taka það af þeim með lagasetningu. Hitt er annað mál að það er mikilvægt að skipuleggja það og sveitarfélögin geta komið því að að menn eigi ekki of margt og þak getur verið á þeirri eign þess vegna. Þetta vil ég ítreka.

Hv. þm. og fyrirspyrjandi, Anna Kristín Gunnarsdóttir, minntist á að það séu ekki bændur sem markaðssetja kjötið. Jú, afurðastöðvarnar eru armleggir bóndans. Bændurnir eru ekki beint í því að markaðssetja mjólkurvörurnar. Það er fagfólk, iðnaðarfólk, sem er glæsilegt fólk og hefur náð miklum árangri á heimsvísu, bæði í kjötinu og mjólkinni, sem fullvinnur það og svo eru sölumenn. Ég hef t.d. orðið þess var að það er mikil vakning í sveitunum, ekki síst hjá konum um allt land í gegnum verkefni sem þær eru að vinna að og ég hef tekið þátt í með þeim, að koma meira inn á það að hitta fólkið í búðunum, fara yfir markaðssetninguna o.s.frv. Það tel ég mjög mikilvægt og skiptir miklu máli að bændurnir kynnist þessu og hafi áhrif á afurðastöðvar sínar o.s.frv.

Ég tel að síðan sé við verslanir að eiga líka. Verslanirnar ráða jafnvel mestu um hvaða kjöt er borðað. Þær gera kröfur um afslætti þegar menn koma að dyrunum. Svínabóndinn gefur kannski afslátt og þá fær hann bestu hilluna og besta stæðið. Það gerir kannski kjúklingastóriðjan líka, en þá er sauðfjárbóndinn veikari. Það koma því margir aðrir inn í þetta og að því verður að hyggja.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég þakka þessa ágætu umræðu og hvet til þess að farið verði yfir málið með öllum þeim sem það varðar.