Kröfur til sauðfjársláturhúsa

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:29:53 (6877)

2004-04-27 16:29:53# 130. lþ. 104.10 fundur 903. mál: #A kröfur til sauðfjársláturhúsa# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þau íslensku sláturhús sem hyggjast flytja afurðir sínar á erlendan markað eru sett undir afar stífar kröfur um tæknibúnað og annan aðbúnað. Gildir þá einu hvort um er að ræða útflutning á Bandaríkjamarkað eða á hið Evrópska efnahagssvæði. Jafnframt þurfa viðkomandi sláturhús að gangast undir miklar árlegar kröfur eftirlitsmanna innflutningslandanna um úrbætur og lagfæringu fyrir tugmilljónir á hverju ári að mati stjórnanda eins stærsta sláturhússins. Í Evrópusambandinu eru ekki gerðar sömu kröfur til sláturhúsa sem slátra á innanlandsmarkað og þeirra er flytja á erlenda markaði, enda eru kröfur til útflutningssláturhúsanna í raun tæknilegar viðskiptahindranir landa sem þegar hafa yfrið nóg af innlendu kjöti á mörkuðum sínum. Aftur á móti má víða finna orðræðu, styrkjamöguleika og reglugerðir sem miða að meira frjálsræði í viðskiptum með framleiðslu bænda og er ætlað að auðvelda innlenda markaðssetningu. Ekki síst á þetta við þegar um strjálbýlli svæði er að ræða.

Síðastliðið sumar gaf íslenska landbúnaðarráðuneytið hins vegar út reglugerð sem gerir öllum sláturleyfishöfum á Íslandi skylt að uppfylla kröfur til aðbúnaðar í útflutningssláturhúsum eða missa sláturleyfið ella. Þær kröfur gera það að verkum að lítil sláturhús í dreifbýlinu, sem mörg eru mikilvægar stoðir byggðarlaga sem eiga í vök að verjast, munu leggja af starfsemi sína. Það mun aftur torvelda heimavinnslu og sölu afurða sem, eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur bent á á Alþingi, er víða að finna í Evrópu og er m.a. hluti af þjónustu við ferðamenn. Þessi ráðagerð mun líka leiða af sér að bændur missa drjúgar aukatekjur sem þeir hafa haft í sláturtíðinni og byggðirnar veikjast enn.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða ástæður eru fyrir því að meiri kröfur eru gerðar til aðbúnaðar í íslenskum sauðfjársláturhúsum en í sláturhúsum innan Evrópusambandsins sem slátra á innanlandsmarkað viðkomandi landa?