Kröfur til sauðfjársláturhúsa

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:38:04 (6880)

2004-04-27 16:38:04# 130. lþ. 104.10 fundur 903. mál: #A kröfur til sauðfjársláturhúsa# fsp. (til munnl.) frá landbrh., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. landbrh. fyrir að leiðrétta ummæli sem hann viðhafði í haust, en í máli hans nú kom fram að það væri alfarið á ábyrgð innlendra stjórnvalda að herða þessar reglur til sláturhúsanna. En í haust sagði hann orðrétt, þegar ég spurði hann út í svipað atriði: ,,Við stöndum að vísu frammi fyrir því að Evróputilskipun um hvernig sláturhúsin skuli vera gengur hér í gildi 2008.`` En nú er það komið á hreint að þetta er alfarið á ábyrgð íslenskra stjórnvalda.

Það leiðir hugann að því máli sem rætt var hér á undan, þ.e. markaðssetningu íslensks kjöts. Þessi ráðstöfun mun að öllum líkindum hækka sláturkostnað og hækka þann kostnað sem fellur á kjötið, hækka verð til innlendra neytenda og skerða samkeppnisstöðu lambakjötsins á innlendum kjötmarkaði.