Kröfur til sauðfjársláturhúsa

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 16:43:13 (6884)

2004-04-27 16:43:13# 130. lþ. 104.10 fundur 903. mál: #A kröfur til sauðfjársláturhúsa# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Mig langar að taka fyrst upp það sem fram kom í máli hv. þm. Drífu Hjartardóttur um að fróðlegt væri að sjá hvernig ný aðildarríki Evrópusambandsins lagi sig að reglum Evrópusambandsins varðandi sláturhús. Ég tel að það verði ekki flókið svo lengi sem þau ætla ekki að flytja út, því það er fyrst þegar fara á að flytja út sem kröfurnar eru harðar. Það er það sem ég er að tala um í máli mínu, að okkur ber engin skylda til að leggja sömu kröfur á þau sláturhús sem hyggjast slátra á íslenskan markað og þau sem ætla að flytja út afurðir sínar. Og það er mjög mikilvægt að því hefur ekki verið mótmælt í dag, enda er það erfitt því að upplýsingar um slíkt eru á heimasíðu breska landbúnaðarráðuneytisins og þar hef ég lesið mér til. Þar hef ég líka séð umsóknareyðublöð um slátrunarleyfi. Ég hef séð þar hvatningar til bænda um að sækja um styrki og leiðbeiningar hvernig fara eigi að því til þess að vinna afurðir heima og markaðssetja þær. Þannig að þar sem víðar mættum við taka Evrópusambandið okkur til fyrirmyndar.

Ég tek undir þá áskorun sem fram kom áðan til landbrh., að vísu þarf hann ekki að fara í lagasetningu vegna þess að aðeins er um reglugerð að ræða, en ég hvet ráðherra til þess að breyta reglugerðinni sem hann setti í sumar er leið um það að öllum sláturhúsum á Íslandi beri að hafa aðbúnað sem sé viðurkenndur til útflutnings og leyfa á Íslandi tvær gerðir af sláturhúsum, þ.e. sláturhús sem geta flutt út afurðir sínar og sláturhús sem slátra á innanlandsmarkað.