Stefnumótun í mjólkurframleiðslu

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:11:11 (6896)

2004-04-27 17:11:11# 130. lþ. 104.12 fundur 905. mál: #A stefnumótun í mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. svörin sem fyrr. Ég vissi að samningaviðræður milli landbrn. og mjólkurframleiðenda standa yfir. Það er ekki fyrr en á næsta ári sem núverandi samningar renna út hvað það varðar ef ég veit rétt. Hins vegar er brýnna að ráða fram úr þeirri réttaróvissu sem ég talaði um í framsöguræðu minni. Ég er fegin að heyra að væntanlegt er lögfræðiálit hvað það varðar.

Eins og fram hefur komið í bæði máli hæstv. landbrh. og hv. þm. Drífu Hjartardóttur hefur það fyrirkomulag sem er í gildi í dag um verðtilfærslu milli afurðaflokka reynst okkur vel og við getum verið afar stolt af mjólkuriðnaðinum okkar. Ég er a.m.k. mjög ánægð með þær framleiðsluvörur sem okkur bjóðast íslenskar og tel þær standast fyllilega og reyndar vera betri en það sem ég hef neytt af erlendum vörum. Réttaróvissa er brýnt viðfangsefi og það er gott að lögfræðingar eru að fást við það verkefni af hálfu ráðuneytisins.

Það verður líka fróðlegt að fylgjast með hvernig samningaviðræðum vindur fram og ég vona að landbn. Alþingis gefist kostur á að fá áfangaskýrslu eða fréttir úr þeim ranni.