Afkoma mjólkurframleiðenda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:16:31 (6898)

2004-04-27 17:16:31# 130. lþ. 104.13 fundur 906. mál: #A afkoma mjólkurframleiðenda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:16]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Í skýrslu um stöðumat og stefnumótun í mjólkuriðnaði kemur fram að meðalhagnaður þeirra mjólkurframleiðenda sem teknir eru til viðmiðunar á árunum 1998--2002 dróst nokkuð saman. Bændur hafa verið að stækka bú sín og hagræða og nú hafa skuldir þeirra meira en tvöfaldast á sama tíma og höfuðstóll er orðinn 10% af því sem hann var árið 1998. Neytendur hafa lítið notið þess sem bændur hafa tekið á sig í hagræðingarskyni en á sama tíma hefur hagur afurðastöðvanna vænkast mjög og er nú eiginfjárstaða þeirra um 70% sem er nánast óþekkt stærð þegar málefni landbúnaðarins ber á góma. Það er því ljóst að bændur og neytendur hafa síður notið hagræðinganna en afurðastöðvarnar, ekki síst ef haft er í huga að a.m.k. í einhverjum tilfellum hefur umtalsvert fjármagn verið tekið út úr rekstri afurðastöðva og sett í óskyldan rekstur. Í því tilfelli má segja að ríkið, neytendur og bændur séu að leggja óskyldum rekstri til fjármagn án þess að nokkrir séu spurðir nema stjórnendur viðkomandi stöðva. En spurningar mínar til hæstv. landbrh. eru eftirfarandi:

1. Hvaða aðgerðir telur ráðherra líklegastar til að bæta afkomu mjólkurframleiðenda?

2. Hvaða aðgerðir telur ráðherra líklegastar til að skila neytendum hagstæðara verði á mjólkurafurðum?