Afkoma mjólkurframleiðenda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:23:37 (6900)

2004-04-27 17:23:37# 130. lþ. 104.13 fundur 906. mál: #A afkoma mjólkurframleiðenda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:23]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Það er rétt að afkoma mjólkurbænda hefur farið örlítið versnandi síðasta ár en ég vil mótmæla því að neytendur hafi ekki notið hagræðingarinnar. Það hafa þeir svo sannarlega gert því það hefur komið fram að mjólkurvörur hafa hækkað minna en aðrar vörur og bændur hafa svo sannarlega notið þessarar hagræðingar.

Það kom hér fram að meðalnyt kúa hefur hækkað mjög mikið og það er miklu betri heyfengur. Ég vil undirstrika það og taka undir með þeim sem hér hafa talað að mjólkuriðnaðurinn er gríðarlega vel rekinn á Íslandi. Ísland er t.d. í þriðja sæti sem mesta ostaþjóð heimsins og við erum að auka sölu á jógúrt og skyri með hverju ári. Kvótaverðið er að lækka vegna þess að framleiðslan hefur í rauninni minnkað. Hún hefur minnkað þannig að afurðastöðvarnar munu greiða fyrir umframmjólkina núna.