Afkoma mjólkurframleiðenda

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:26:45 (6902)

2004-04-27 17:26:45# 130. lþ. 104.13 fundur 906. mál: #A afkoma mjólkurframleiðenda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. að þetta lofar góðri samstöðu og samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu í þinginu um landbúnaðarmálin og fyrir það er ég þakklátur.

Í umræðu um landbúnaðarmál og íslensk matvæli er oft talað um að margt sé dýrara á Íslandi en annars staðar, en ég hygg að það liggi fyrir þegar grannt er skoðað að íslenskar landbúnaðarafurðir eru ekki hlutfallslega dýrari en annað á Íslandi. Það er kannski meira undrunarefni hvernig margt sem flutt er inn margfaldast í verði í hafi. En það hefur verið markmið bændanna og ríkisvaldsins að leita leiða til þess að lækka verð á þessum góðu vörum sem við eigum og að því er unnið þannig að neytendur verði sem ánægðastir með sinn landbúnað. Ég finn auðvitað þá miklu samstöðu sem ríkir um landbúnað í dag og hefur gert síðustu árin gagnstætt því sem kannski var um nokkurra ára skeið.

Ég vil líka þakka það að hv. þm. tekur undir hvað varðar verðlagningu mjólkurinnar og ég tel það stórmál að mjólkuriðnaðurinn fái lausn í þeim efnum þannig að hann geti starfað heildstætt. Og við verðum að hugsa um það í alvöru að sá litli, smásalinn, þarf líka sinn rétt. Það er ansi hart ef stóru keðjurnar geta á lokuðum fundum pínt framleiðendur til að veita afsláttarkjör sem litlir framleiðendur fá alls ekki. Þannig er samkeppni okkar því miður á mörgum sviðum. Þannig yrði það örugglega í mjólkuriðnaðinum ef allt yrði látið verða frjálst undir þeim samkeppnislögum sem við búum við, ef mjólkuriðnaðurinn heyrði allur undir þau. Það er þetta drottnunarvald þeirra stóru og fáu sem ég vil forðast til þess að mjólkuriðnaðurinn geti verið áfram sú góða ímynd og það góða fyrirtæki sem hann hefur verið síðustu áratugi.