Strandsiglinganefnd

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:38:06 (6905)

2004-04-27 17:38:06# 130. lþ. 104.14 fundur 811. mál: #A strandsiglinganefnd# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:38]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það ber að fagna sérstaklega frumkvæði hins önfirska frumkvöðuls Ragnars Traustasonar, að hafa ráðist í strandsiglingar milli suðvesturhornsins og Vestfjarða. Ég er þeirrar skoðunar, gagnstætt því sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar sem hæstv. ráðherra vitnaði til, að mikil hagkvæmni sé fólgin í að nýta sjávarleiðir til flutninga. Það snertir ekki bara slys, sem hæstv. ráðherra vísaði til, heldur einnig annars konar markmið sem við verðum að hafa í huga, þ.e. umhverfisvernd.

Við Íslendingar höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar sem eiga að knýja okkur til að draga verulega úr losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda. Flutningar á sjó eru klárlega þáttur sem leyst gæti verulegan hluta þess vanda sem við blasir í þeim efnum. Þess vegna segi ég að við eigum að kanna hvort hægt sé, með varfærni, að breyta kerfinu þannig að flutningar verði hagkvæmari á hafi en þeir hafa verið hingað til.