Flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 17:57:05 (6915)

2004-04-27 17:57:05# 130. lþ. 104.15 fundur 938. mál: #A flutningur hættulegra efna um Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[17:57]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svarið og þeim þingmönnum sem hafa lagt gott til þessa máls og umræðuna um það. Það kemur fram að lögreglan telji góða reynslu af þessum nýju reglum. Í sjálfu sér er það rétt. Meðan ekki verður þarna stórt óhapp reynir kannski ekki mikið á þetta. En hættan er sú að þarna verði alvarlegur eldsvoði og þá er verr af stað farið en heima setið að hafa ekki strangari reglur um þetta en þessar. Ég minni á að það hefur nokkrum sinnum skeð á þessum fáu árum sem göngin hafa verið í notkun að legið hefur þarna við stórum óhöppum. Það hefur lekið m.a. af bensínbíl og ekki þurfti nema einn neista til að allt færi í bál og brand. Við höfum náttúrlega heyrt hræðilegar fréttir erlendis frá af gangabrunum þar sem enginn ræður neitt við neitt og ekki síst á það við um göng í iðrum jarðar.

Þess vegna minni ég á að Vinnueftirlitið benti á þá hættu sem stafar af þessum flutningi árið 2000 og taldi að alvarlegt óhapp við eldsneytisflutning um göngin þannig að eldur kæmist í farm flutningabifreiðar eða bensínbifreiðar gæti skapað mikla hættu fyrir alla sem í göngunum kynnu að vera. Þeir töldu að til álita kæmi að heimila alls ekki slíkan flutning um göngin, a.m.k. ekki meðan þau eru opin fyrir annarri umferð.

Fyrir nokkrum árum var hér birt áhættumat verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens þar sem þeir leiddu líkur að því að það gæti orðið bruni í litlum bíl í þessum göngum á sex ára fresti og í flutningabíl á 24 ára fresti. Ég veit ekki hvaða vísindi lágu til grundvallar þessu mati. En hvort sem það er rétt eða ekki og hvort sem þessi óhöpp verða á margra ára fresti eða skemur þá verðum við að gera allt til að koma í veg fyrir að slík slys geti orðið því að einn eldsvoði í þessum djúpu göngum getur valdið óbætanlegu tjóni. Við höfum, eins og ég sagði, séð slíkar fréttir erlendis frá sem eru alveg skelfilegar þegar þessi atvik verða.

Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra og fagna því að hann skuli ætla að endurskoða þetta mál. Ég treysti honum mjög vel til að finna lausn á þessu og vona að hann komist að sömu niðurstöðu og ég og aðrir þeir sem hér hafa talað, þ.e. að nauðsynlegt sé að taka á þessum málum og herða reglurnar verulega.