Símaþjónusta barnadeildar á Landspítalanum

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:05:26 (6918)

2004-04-27 18:05:26# 130. lþ. 104.16 fundur 707. mál: #A símaþjónusta barnadeildar á Landspítalanum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Þuríður Backman hefur beint til mín fyrirspurn um símaþjónustu barnadeildar á Landspítalanum. Sem kunnugt er setti barnadeild Landspítala -- háskólasjúkrahús á laggirnar símaþjónustu fyrir nokkru sem gaf möguleika á að hringja beint til barnadeildarinnar og fá þar upplýsingar og ráð. Um var að ræða óformlega símaþjónustu sem ekki var auglýst sem hluti af vaktþjónustu spítalans. Í hagræðingarskyni hyggst spítalinn nú leggja þessa þjónustu niður eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda.

Símtölum þessum verður beint á heilsugæslustöðvarnar, bæði á höfuðborgarsvæðinu og um land allt, eins og eðlilegt verður að teljast. Mun Heilsugæslan efla getu sína til að annast þessa þjónustu að deginum til og koma upp miðlægri svörun á Heilsuverndarstöðinni innan skamms. Á kvöldin, nóttinni og um helgar hefur Læknavaktin annast þessa þjónustu af miklum myndarbrag og sinnt miklum fjölda símtala. Hefur hún sinnt 60--70 þúsund símtölum árlega. Mun hún annast þá þjónustu áfram.

Ekki þarf að geta þess að aðgengi heilsugæslunnar að sérþjónustunni sem barnadeildin veitir mun verða að öðru leyti óbreytt þó símtöl frá almenningi fari ekki lengur beina leið til barnadeildarinnar.

Ég vona að þessar upplýsingar svari fyrirspurn hv. þm.