Afsláttarkort Tryggingastofnunar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:13:10 (6922)

2004-04-27 18:13:10# 130. lþ. 104.17 fundur 713. mál: #A afsláttarkort Tryggingastofnunar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Tryggingastofnun ríkisins er falið með reglugerð að kynna almenningi reglur um afsláttarskírteini, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 981/2003, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Leitað var eftir upplýsingum um það hvernig stofnunin stæði að kynningu á afsláttarskírteinum og í svari stofnunarinnar segir að Tryggingastofnun ríkisins gefi út bæklinga þar sem upplýst er um afsláttarskírteinin. Bæklingarnir liggi frammi á flestum læknastöðvum og víðar. Einnig megi finna upplýsingar um skírteinin á heimasíðu stofnunarinnar. Þá hafi stofnunin gefið út spjöld sem send hafi verið læknastöðvum þar sem fram komi upplýsingar um greiðslu sjúklinga fyrir læknisþjónustu með og án afsláttarskírteina. Spjöldin hangi mjög víða uppi.

Þá hafi flestar læknastöðvar fyrir venju að spyrja sjúklinga þegar þeir greiða fyrir þjónustu hvort þeir hafi afsláttarskírteini. Í Læknablaðinu er sérstaklega fjallað um þær fjárhæðir sem Tryggingastofnun ríkisins hefur endurgreitt vegna afsláttarskírteina. Þar er einungis um að ræða endurgreiðslu á þeim kostnaði sem rétthafi afsláttarskírteinis hefur greitt án þess að framvísa afsláttarskírteininu. Í slíkum tilfellum er sjúklingi endurgreiddur hluti kostnaðarins og er tekið tillit til þess hvað hann hefði átt að borga ef hann hefði framvísað afsláttarskírteini.

Til einföldunar er miðað við að sjúklingur hefði greitt 1/3 af kostnaðinum ef hann hefði framvísað skírteininu. Hann fær því 2/3 hluta kostnaðarins endurgreiddan. Í Læknablaðinu kemur fram að kostnaðurinn hafi verið 75 millj. kr. á árinu 2001. Þar komu ekki fram þær fjárhæðir sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt í þeim tilvikum þegar sjúklingar framvísa skírteini. Þær fjárhæðir hafa ekki verið teknar saman en gera má ráð fyrir að þær séu margfalt hærri en endurgreiðslurnar.

Tryggingastofnun ríkisins getur ekki gefið upplýsingar um komur sjúklinga á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús þar sem hún hefur ekki heimildir til að afla slíkra upplýsinga.

Herra forseti. Ég tel að Tryggingastofnun ríkisins hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni við almenning nokkuð vel en ætíð má deila um hversu umfangsmikil slík kynning eigi að vera. Erfitt er að ná til allra hlutaðeigandi og jafnframt er ávallt til nokkur hópur sem tekur ákvörðun um að sækja ekki um afsláttarskírteini. Í þessu sambandi er þess utan rétt að taka fram að nú er nánast regla að heilbrigðisstarfsmenn á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, hjá sérfræðilæknum og annars staðar þar sem sjúklingar sækja sér þjónustu spyrja þá jafnan hvort þeir séu með afsláttarkort. Þannig eru menn með beinum og áberandi hætti minntir á rétt sinn og vaktir til umhugsunar um þann rétt.

Þá er ljóst að samkeyrsla á upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins, heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa er viðkvæmt persónuverndarmál og því þarfnast slíkt vandlegrar skoðunar áður en óskað er eftir slíkum heimildum fyrir stofnunina. Núverandi fyrirkomulag afsláttarskírteina er með þeim hætti að það getur uppfyllt þau markmið sem skírteinunum er ætlað, en ég mun að sjálfsögðu taka til skoðunar þau atriði sem bent er á í áðurnefndri grein í Læknablaðinu.