Afsláttarkort Tryggingastofnunar

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:16:36 (6923)

2004-04-27 18:16:36# 130. lþ. 104.17 fundur 713. mál: #A afsláttarkort Tryggingastofnunar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég vil leggja orð í belg varðandi þessa ágætu fsp. Það er kannski ágætisábending að á kvittunum sem sjúklingar fengju þegar þeir greiddu sjúkrakostnað og tækju við lyfjum væri að finna áminningu um að það væri þess virði að geyma kvittunina og safna þeim saman.

Ég vil minna á ákveðna lagabreytingu sem var gerð í heilbr.- og trn. þegar við fjölluðum um svokallaðan lyfjagagnagrunn og gagnagrunn sem Tryggingastofnun er með til að fylgjast með lyfjakostnaði. Ein forsendan fyrir því að Tryggingastofnun geti haldið utan um kostnaðinn og hjálpað fólki við að gera það, og gert var ráð fyrir þegar verið var að ganga frá lagabreytingunni og gefa heimild til að halda gagnagrunninum saman, var að sjúklingar gætu óskað skriflega eftir því við Tryggingastofnun að hún héldi utan um þetta þannig að það kæmi aðvörun frá Tryggingastofnun þegar fólk hefði náð tilteknum kostnaði og hámarkinu.