Menntun fótaaðgerðafræðinga

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:29:48 (6929)

2004-04-27 18:29:48# 130. lþ. 104.18 fundur 808. mál: #A menntun fótaaðgerðafræðinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Mig langar að þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, fyrir fsp. hennar varðandi nám og störf fótaaðgerðafræðinga og hæstv. ráðherra fyrir ágætt svar sem kastar ljósi á hvar málið er statt og sýnir í rauninni að það heyrir undir menntmrn.

Ég vil draga fram að það er stór munur á fótaaðgerðafræðingum og fótsnyrtum því fótaaðgerðafræðingar tilheyra heilbrigðisstétt. Ég þekki það frá fyrri árum, þar sem ég starfaði einu sinni fyrir þetta ágæta félag, að það eru ýmis rök fyrir því að vera með námið hérlendis eins og hv. þm. benti á. Hugsanlega eru einhverjar konur sem vilja fara í þetta nám en eiga erfitt með að fara erlendis til þess frá búi og börnum. Það má líka segja að ef við setjum námið á háskólastig erum við um leið að takmarka þann hóp sem á aðgang að náminu, ef við horfum til kvenna sem eru ekki á tvítugsaldri eða eitthvað eldri. En ég vil halda því til haga að þetta er heilbrigðisstétt og full þörf á að nógu margir séu í stéttinni til að sinna þörfinni.